„Fólk setti hjarta sitt á borðið“

Leikfélag Selfoss frumsýnir í kvöld leikverkið „Vertu svona kona“ í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur. Sýningin er sameiginleg sköpun leikstjórans, leikhópsins og hins skapandi teymis.

Öll tónlist og hljóðmynd er í höndum Kristjönu Stefánsdóttur, leikmyndahönnuður er María Marko og um ljósahönnun sér Benedikt Axelsson.

„Ég er búin að ganga með þetta í maganum lengi, að búa til sýningu um konur. Konuna í sögunni og söguna í konunni. Ég þýddi texta úr bók eftir Margaret Atwood, sem mér fannst áhugaverð, bók sem heitir Good bones. Ég lagði svo af stað með þetta og skrifaði fullt af textum sjálf og kom með þetta hérna inn í félagið. Þau sögðu bara já, og leyfðu mér að halda áfram með þetta, sem eru bara forréttindi. Svo hefur þetta bara undið upp á sig,“ segir Guðfinna í samtali við sunnlenska.is, og bætir við að hún sé stolt og glöð yfir því að þessi gamla hugmynd sé nú loksins komin á svið.

„Allur hópurinn hefur tekið þátt í því að búa til sýninguna. Við fórum á trúnó og fólk setti hjarta sitt á borðið, annað hvort með eitthvað sem þau langaði að segja frá persónulega, eða eitthvað sem þeim datt í hug. Ég tók það áfram og skrifaði upp úr, breytti sumu eða kom með eitthvað alveg nýtt. Þannig að þetta hefur verið mikil samsköpun og mikið púsluspil.“

Guðfinna segir að í verkinu sé ekki eiginlegur línulaga söguþráður, heldur sé það í höndum áhorfandans að tengja hlutina saman.

„Það er skáldkona sem heldur utan um söguna. Allar persónurnar í sögunni geta verið sama manneskjan, eða skáldkonan sem er að segja söguna. Þannig að hún er hringurinn utan um söguna og svo er farið út um víðan völl. Við skoðum kvenímyndir, hvernig konan er í sjónvarpi, hvernig konur eru hlutgerðar. Við tæpum á ellinni, vináttu kvenna, ástinni… og það er alveg karllægt líka, strákarnir í leikhópnum hafa komið inn með góðar hugmyndir sem við erum að nota,“ segir Guðfinna.

Æfingaferlið hefur tekið sjö vikur og tólf leikarar taka þátt í sýningunni. Guðfinna er virkilega ánægð með hópinn.

„Við byrjuðum snemma í september og þetta hefur gengið rosalega vel. Leikhópurinn er frábær og það skiptir svo miklu máli í svona samsköpun. Þau eru til í allt og voru ekkert ringluð eða áttavillt þó að ég væri að láta þau æfa staka hluti og þau fengu ekki að sjá hvernig þetta púslaðist saman fyrr en smátt og smátt. Þetta er búið að vera í mótun fram á síðustu stundu.“

Sýningin markar upphaf 60 ára afmælisárs Leikfélagsins sem stofnað var 9. janúar 1958. Sýningafjöldi er takmarkaður en átta sýningar verða á verkinu og er lokasýning þann 17. nóvember.


Guðfinna Gunnarsdóttir, leikstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinFSu og Gnúpverjar töpuðu
Næsta greinHvergerðingar kaldir í 3. leikhluta