„Fólk hefur ekki hlustað á Hipsumhaps fyrr en það hefur mætt á tónleika“

Ljósmynd/Aðsend

Þann 15. júlí næstkomandi mun Hipsumhaps halda tónleika í Skyrgerðinni í Hveragerði.

Hipsumhaps gaf nýverið út sína aðra breiðskífu sem ber heitið Lög síns tíma en áður hafði komið út platan Best gleymdu leyndarmálin sem innihélt meðal annars smellinn LSMLÍ (Lífið sem mér langar í).

„Ég hef lengi vitað af Skyrgerðinni og langar til þess að koma þar fram. Tónlistarfólk talar vel um andrúmsloftið sem að myndast þarna. Ég hitaði upp fyrir Jóa og Kidda þarna um daginn og þetta leggst bara vel í mig. Hveragerði er fallegur staður og ég hlakka til þess að sjá ný andlit,“ segir Fannar Ingi Friðjónsson, söngvari Hipsumhaps, í samtali við sunnlenska.is.

Ekki er beint hægt að lýsa Hipsumhaps sem hljómsveit. „Hipsumhaps er lifandi konsept. Fólk kemur og fer. En ég er sjálfsagt kyndilberinn í þessu öllu saman,“ segir Fannar en með honum í Skyrgerðinni verða þeir Reynir Snær og Baldvin Snær. „Báðir frábærir tónlistarmenn. Svo er Teitur Ingi spiknettur á hljóðinu,“ bætir Fannar við.

Fannar segir tónleikana í Skyrgerðinni vera fyrir hvern sem er. „Ég ætla að hafa afslappaða stemningu, spjalla við salinn og segja nánar frá sögunum á bak við lögin. Ég sé nýju plötuna sem eitt lag, eina sögu – og er eiginlega spenntari fyrir því að fólk lýsi henni fyrir mér. Allir upplifa hana á sinn hátt.“

Eftir öll Covid-leiðindi segir Fannar að það sé gaman að vera loksins byrjaður að halda tónleika á ný. „Við erum búnir að spila nokkra tónleika í sumar og það er ótrúlega kærkomin tilfinning. Þessi vetur er búinn að vera þokkalega erfiður og núna rifjast upp afhverju maður er að leggja á sig alla þessa vinnu,“ segir Fannar.

Miðasala á tónleikana hófst í dag, 7. júlí og vonast Fannar til að sjá sem flesta. „Fólk hefur ekki hlustað á Hipsumhaps fyrr en það hefur mætt á tónleika,“ segir Fannar að lokum

Viðburðurinn á Facebook

Miðasala á tix.is

Fyrri greinBeinin ekki mannabein
Næsta greinLuis hetja Stokkseyringa