Flygiltónleikar gera lukku hjá Mýrdælingum

Tónleikaröðin Sunnlenskur tónblær hefst með flygiltónleikum í Vík. Þetta er þriðja árið í röð sem flygiltónleikar verða haldnir í sal Tónskóla Mýrdalshrepps í Vík, laugardaginn 11. október kl. 11:30 á Regnbogahátíðinni.

Fyrir þremur árum kom sögulegur flygill, flygill Mýrdælinga, til Tónskólans Mýrdalshrepps. Þetta var að frumkvæði Önnu Björnsdóttur, tónmenntakennara og kórstjóra í Vík, sem hóf söfnun fyrir flyglinum árið 2007 á sextugsafmæli sínu. Boltinn rúllaði síðan, flygilnefnd var stofnuð, og margir lögðu til fé til að fjármagna glæsilegan flygil sem í dag á heima í Tónskólanum. Flygillinn er nýttur vel til kennslu og tónleikahalds, öllum Mýrdælingum til gleði og ánægju.

Flygiltónleikarnir eru einnig fyrstu tónleikarnir í röðinni Sunnlenskur tónblær. Tónleikarnir eru í höndum píanóleikarans og tónskáldsins Einars Bjarts Egilssonar, sem mun flytja fjölbreytta dagskrá. Hún spannar allt frá verkum eftir Bach, Chopin og Schubert til nútímatónlistar eftir Ludovico Einaudi. Einnig mun Einar kynna ný tónverk úr eigin smiðju, meðal annars Heimkomu og Flogið burt.

Á efnisskránni eru meðal annars:
J. S. Bach – Prelúdía í C-dúr
F. Chopin – Noktúrna í Es-dúr op. 9 nr. 2
Ludovico Einaudi – Fly (úr The Intouchables)
César Franck – Prelúdía, Fúga og Tilbrigði
Einar Bjartur Egilsson – Heimkoma og Flogið burt
F. Schubert – Impromptu í G-dúr

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir eru velkomnir, en pláss er takmarkað.

Tónleikaröðin Sunnlenskur tónblær er styrkt af Mýrdalshreppi, Menningarsjóði FÍH og Gistihúsinu Ársölum. Listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar er Alexandra Chernyshova, óperusöngkona, tónskáld og skólastjóri Tónskóla Mýrdalshrepps.

Fyrri greinAllar varnir lágu niðri
Næsta greinBerserkir BJJ með fjögur gull á Íslandsmótinu