Fljúgandi villisvín sækja í sig veðrið

Feðginin Hafsteinn og Ronja skipa dúettinn Fljúgandi villisvín. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Feðginin Ronja Lena Hafsteinsdóttir og Hafsteinn Viktorsson á Selfossi vöktu verðskuldaða athygli þegar þau komu fram á barnvæna markaðnum í Skrúfunni á Eyrarbakka fyrir skömmu.

Feðginin kalla sig Dúettinn Fljúgandi villisvín og hafa helst verið að koma fram á fjölskylduskemmtunum víðsvegar um Suðurlandið. Þau spila allskonar tónlist, hvort sem það eru krúttleg barnalög eða rokklög úr níunni.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti feðginin á litríku og fallegu heimili þeirra á Selfossi rétt áður en gul veðurviðvörun tók í gildi. Þó að stormurinn væri á næsta leiti þá var augljóst að þessi hæfileikaríku feðgin láta fátt raska sinni innri ró. Afslappað viðmót þeirra beggja gerir það að verkum að það er sérstaklega notalegt að hlusta á þau syngja.

„Ég byrjaði í hljómsveitinni Nostalgíu í skólanum fyrir sirka ári síðan. Þá byrjaði ég líka að fíla meira að syngja og fór að syngja meira fyrir framan annað fólk. Við vorum að spila á árshátíðum, útskriftum og þess háttar. Á sama tíma fór ég líka að syngja meira með pabba,“ segir Ronja sem hefur sótt söngtíma til Reykjavíkur.

Fyrsta giggið hjá feðginunum var á Rauða húsinu á Eyrarbakka haustið 2022. „Þá var open mic og við vorum að syngja fyrir framan fullt af útlendingum. Það var sjúklega gaman,“ segir Ronja.

Röð tilviljana
Hafsteinn segir að þetta hafi ekki verið planað – örlögin hafi einfaldlega tekið í taumana. „Það kom bara óvænt. Það koma bara svona tilviljanir. Ég hef alltaf verið ófeiminn, alltaf verið að góla eitthvað og syngja og svo allt í einu fór Ronja að blómstra og verða ófeimin og þá gerðist þetta bara,“ segir hann og lítur stoltum augum á dóttur sína.

„Við fórum á opið hús í Skrúfunni og ég sé gítar á staðnum. Í einhverju eirðarleysi tek ég upp gítarinn og byrjaði að spila,“ segir Hafsteinn og Ronja er fljót að skjóta inn í. „Hann er smá athyglissjúkur,“ segir hún og þau hlæja bæði.

Hafsteinn segir að þau hafi farið að syngja og það hafi fljótt orðið mikil stemning á staðnum upp úr engu. „Svo þegar Berglind hjá Skrúfunni heldur barnvæna markaðinn um daginn þá bað hún okkur um að koma og taka nokkur lög og það gekk rosa vel.“

Stendur glaður í skugganum
Sem fyrr segir er lagalisti feðginanna mjög fjölbreyttur. „Fyrstu lögin sem við spiluðum voru Piano Man og Creep. Við spilum allskonar tónlist – einhver barnalög en svo tökum við eiginlega bara það sem okkur langar að spila,“ segir Ronja og bætir því við að þau séu ekki alltaf sammála um lagavalið en hún hafi þó lokaorðið, þar sem það er hún sem syngur lögin.

„Ég held að ég hafi aldrei upplifað að vera jafn glaður yfir því að vera í skugganum af einhverjum eins og í þessu samstarfi. Þetta er out of body experience fyrir mig að vera allt í einu með barnið mitt fyrir framan mig að blómstra,“ segir Hafsteinn og segir að tilfinningin þegar hann sá dóttur sína syngja fyrst opinberlega hafa verið ólýsanlega.

Hafsteinn og Ronja sungu Radiohead slagarann Creep fyrir blaðamann sunnlenska.is við góðar undirtektir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Söngurinn kviknaði á Selfossi
Þó að það sé feðginunum eðlislægt að syngja saman þá hafa þau alls ekki gert það lengi, enda bara stutt síða Ronja fór að syngja sjálf. „Það var ekki fyrr en við fluttum aftur á Selfoss fyrir níu árum og ég byrjaði aftur í hljómsveitarstússi og var meira að syngja heima að Ronja kom inn og tók einhver lög. Þetta lá svolítið í dvala þegar við bjuggum í bænum,“ segir Hafsteinn og Ronja bætir því við að hún muni ekki mikið eftir sjálfri sér að syngja sem barn.

Nafnið Fljúgandi villisvín varð ekki til eftir langar pælingar. „Pabbi sendi á mig skilaboð og spurði hvað við ættum að heita og þetta var það fyrsta sem mér datt í hug. En svo kom hann með „dúettinn“ – Dúettinn Fljúgandi villisvín.“

„Mig langar að hafa sönginn alltaf með en ég líka með önnur plön. Mér finnst líka rosa gaman að leika en ég hef verið í leiklist í skólanum í þrjú ár. Við vorum að sýna lokasýninguna á Footloose í gær og ég var að syngja þar líka. Mér finnst þetta rosa gaman. Þannig að, já, mig langar að leika og vera í leikhúsinu og syngja,“ segir Ronja sem hyggist mennta sig enn frekar á þessum sviðum í framtíðinni, annað hvort hérlendis eða erlendis.

Er náttúruafl
Það er augljóst að Hafsteinn er mjög stoltur af dóttur sinni. „Hún ber nafn með rentu. Hún er bara svona Ronja – fer sínar leiðir. Hún er mitt fyrsta barn og þetta er rosa góð æfing í að sleppa tökunum. Njóta með henni sem maður getur en svo þarf hún að fá að breiða út vængina og vera bara þetta náttúruafl sem hún er,“ segir Hafsteinn.

„Þetta er skemmtileg leið fyrir foreldri og barn að verða félagar. Það er þroskandi fyrir mig og Ronju að vinna saman. Við erum jafningjar,“ segir Hafsteinn og Ronja bætir því við að það sé mjög gaman að vinna með honum.

Lögga og jógakennari
Auk þess að troða upp með gítarinn starfar Hafsteinn sem rannsóknarlögreglumaður og jógakennari. Aðspurður hvernig þessi ólíku störf fari saman segir hann að þetta gangi bara vel. „Löggan er svona frekar hart og gróft, jógakennarinn er mjúkur og mildur á móti og svo er þessi sköpun, þessi útrás, sem er svo nauðsynleg í gegnum söng og músík,“ segir Hafsteinn.

Eftir að þau fluttu aftur á Selfoss fyrir níu árum fékk Hafsteinn sér aftur rafmagnsgítar og magnara. „Við erum með lögguband. En svo flutti trommarinn okkar í burtu þannig að nú samanstendur bandið af tveimur löggum, tveimur sjúkraflutningamönnum og einum kokki. Hljómsveitin heitir Bandið í bænum,“ og bæði Hafsteinn og Ronja hlæja þó að honum sé fúlasta alvara með þessu. „Við höfum verið að taka nokkur gigg – spilað í brúðkaupum og þess háttar,“ segir Hafsteinn og bætir því við að það sé líka hægt að bóka Fljúgandi villisvín í brúðkaup. „Við erum tvær raddir, gítar, munnharpa og smá slagverk.“

Braust út úr skelinni með pabba
Ronja segir að henni finnist mjög gaman að syngja og að hún grípi hvert tækifæri sem gefst til þess. „Mér finnst ég persónulega vera með mjög sterka rödd og finnst mjög gaman að syngja power lög eins og til dæmis Holding Out for a Hero sem ég syng í Footloose. Svo finnst mér líka gaman að syngja lög sem eru með Billie Eilish væbi. Svo finnst mér líka sjúklega gaman að syngja djass og held ég mjög mikið upp á Laufeyju Lín.“

„Þó að ég hafi verið að syngja með hljómsveitum þá var það ekki fyrr en ég söng fyrst með pabba á Rauða húsinu sem mér fannst mér ég syngja almennilega í fyrsta skipti. Þá braust ég út úr skelinni,“ segir Ronja að lokum.

Hægt er að bóka Dúettinn Fljúgandi villisvín með því að senda tölvupóst á fljugandi.villisvin@gmail.com.

Þeir sem hafa heyrt Ronju syngja vita að hér er á ferðinni einstök rödd sem er bara rétt að byrja. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinJordan verður áfram í hamingjunni
Næsta greinSigursveinn setti HSK met í Kaupmannahöfn