Fjörugir söngtónleikar Tónsmiðjunnar

Í kvöld og á morgun munu söngnemendur Tónsmiðju Suðurlands halda tónleika á Hvolsvelli og á Selfossi.

Á tónleikunum koma fram alls sextán einsöngvarar sem einnig skipa stóran hluta þess kórs er syngur með. Tónlistin er ekki af verri endanum enda sótt í þekkta söngleiki og kvikmyndir. Má nefna lög á borð við Season of Love úr söngleiknum Rent, Blikandi stjörnur úr Hárinu og I don’t know how to love him úr Jesus Christ Superstar.

Undir leika valinkunnir tónlistarmenn; Gunnar Jónsson á trommur, Róbert Dan Bergmundsson á bassa, Stefán Þorleifsson á píanó og Örn Eldjárn á gítar. Öllu er svo stjórnað af Eyrúnu Jónasdóttur.

Fyrri tónleikarnir eru í Hvolnum í kvöld kl. 20:30 og seinni tónleikarnir eru í sal FSu á morgun kl. 17:00. Aðgangur er náttúrulega ókeypis.

Fyrri grein„Gífurleg vonbrigði“
Næsta greinViðlagatrygging bætir ekki ræktarlönd