Fjórir höfundar lesa í kvöld

Fjöldi rithöfunda heimsækir Sunnlenska bókakaffið á Selfossi í vikunni enda jólabókavertíðin í háflæði.

Í kvöld, fimmtudaginn 9. desember, mæta Bragi Ólafsson, Unnur Karlsdóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og Jón M. Ívarsson og lesa úr verkum sínum.

Bragi er höfundur skáldsögu sem hlotið hefur tilnefningu til bókmenntaverðlauna og heitir: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Unnur Birna er höfundur bókarinnar Þar sem fossarnir falla. Í henni er gerð grein fyrir sögu virkjana og nýtingar fallvatna síðastliðin 100 ár. Ingibjörg Elsa þýðir Dæmisögur Tolstojs og Jón M. Ívarsson er höfundur bókarinnar HSK í 100 ár sem er stórvirki í héraðssögu Suðurlands.

Bækurnar sem lesið er úr verða á tilboði þetta kvöld.

Upplestur á fimmtudagskvöldum hefst klukkan 20, ókeypis aðgangur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.