Fjórða lag Moskvít komið á streymisveitur

Hljómsveitin Moskvít.

Sunnlenska rokksveitin Moskvít slær ekki slöku við en þeir félagar gáfu út sitt fjórða lag á streymisveitum í gær.

Lagið nefnist Baby are you there og eins og fyrri þrjú lögin tilheyrir það væntanlegri plötu hljómsveitarinnar, sem gengur undir nafninu Human Error. Platan er þema plata sem snertir á ýmsu t.d. siðfræði, menningu og heimspeki, sem er miðlað í gegnum raðmorðingja.

„Þetta er kraftmikið rokk lag með mikin blús innblástur. Lagið fjallar um mislukkað samband milli konu og manns. Eftir að hlutirnir ganga ekki upp milli þeirra fer maðurinn að taka lífið sitt í gegn með þeim tilgangi að nudda því framan í konuna,“ segja Moskvítliðar í tilkynningu.

Hljómsveitin gaf einnig út á dögunum tónlistarmyndband við lagið Counting Teeth, sem er fyrsta lag sem hljómsveitin gaf út.

Baby are you there var tekið upp og hljóðblandað hjá Kjartani Guðmundssyni í Dynur Recording Studio í Hveragerði og Neil Pickles hjá Reveal Sound sá um hljómjöfnun.

Hljómsveitin Moskvít hefur starfað í rúmlega eitt ár í núverandi mynd en hljómsveitina skipa þeir Sjonni Arndal, söngur og bassi, Alexander Örn Ingason, trommur og bakraddir, Jón Aron Lundberg, píanó og bakraddir og Valgarður Uni Arnarsson, gítar og bakraddir.

Fyrri greinRúmar 20 milljónir króna til sunnlenskra íþróttafélaga
Næsta greinÁlfheiður leiðir Pírata í Suðurkjördæmi