Fjórar sýningar opna í Listasafninu

Róska myndlistakona og kvikmyndagerðarmaður á vinnustofu sinni í Ásmundarsal. Myndin var tekin vegna viðtals við Rósku sem birtist í Þjóðviljanum í tilefni af opnun sýningar listafélagsins SÚM á verkum hennar í september 1967. Verkið Hlandblautar löggur í bakgrunni. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Laugardaginn 5. júní verða fjórar sýningar opnaðar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Sumarsýningar Listasafns Árnesinga; Róska, Iðustreymi og Yfirtaka hafa marga snertifleti. Það streymir úr iðunni á milli sýningarsala; frá einum tíma til annars, frá einu verki til annars, frá listum til gesta.

RÓSKA. Tíminn og ég. 1967. Akrýl á spónaplötu. Úr safneign Nýlistasafnsins.

Á sýningunni RÓSKA – Áhrif og andagift hefur Ástríður Magnúsdóttir sýningarstjóri sett saman sýningu á verkum Rósku og fær þar tækifæri til að miðla baráttuanda hennar og myndheimi sem var allt í senn fagur, marglaga og ögrandi. Róska (Ragnhildur Óskarsdóttir 1940-1996) var listamaður sem hafði mikil áhrif á samtíma sinn og komandi kynslóðir listamanna, og enn á eftir að uppgötva og rannsaka margar víddir verka hennar. Hún var óhrædd við að vinna þvert á miðla og það á einnig við samtímalistakonurnar í Iðustreymi og Yfirtöku.

ANNA KOLFINNA KURAN. Iðnó Yfirtaka. 2019 Gjörningur.

Í þátttökugjörningnum Yfirtaka, gerir listakonan Anna Kolfinna Kuran tilraunir til að taka yfir rými með hjálp kvenna úr ólíkum áttum samfélagsins, bæði á opnun sýninganna sem og í vídeóverki. Sýningarstjóri er Kristín Scheving.

KATRÍN ELVARSDÓTTIR. Kona í rauðri kápu/Woman in Red Coat, from the series Equivocal. 2008.

Á sýningunni Iðustreymi sýna Gjörningaklúbburinn, Katrín Elvarsdóttir, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sara Björnsdóttir & Elísabet Jökulsdóttir. Kristín sýnir saumaðar myndir í striga, í senn kraftmikil og viðkvæm verk. Kristín hefur leikið sér með fjölþætta tækni, meðal annars í ögrandi málverkum sem unnin eru með aldagamalli aðferð með eggtemperu á tré og blaðgulli. Gjörningaklúbburinn sýnir vídeóverk sitt Aqua Maria, magnþrungið verk sem vísar í baráttuanda kvenna og byltinga undanfarinna ára. Sara sýnir textaklippimyndir þar sem textinn er allt í senn beittur, ljóðrænn, húmorískur, súrrealískur og ádeila. Katrín gerir óvæntar tilraunir með ljósmyndina. Ljósmyndaverk hennar einkennast af brotakenndum en jafnframt óræðum frásögnum þar sem leikið er með hugmyndina um sameiginlega minningarsköpun. Ljóð og texti Elísabetar Jökulsdóttur úr ljóðabókinni Sjáðu, Sjáðu mig, þannig geturðu elskað mig og úr Bænahús Ellu Stínu má lesa innan um verk hinna kvennanna. Ljóðin tengja verkin á sýningunum saman með þráðum sem Elísabet vefur á sinn einstaka hátt. Sýningarstjórar eru Kristín Scheving & Ástríður Magnúsdóttir.

Hvítur er 40 ára afmælissýning Leirlistafélags Íslands. Um er að ræða pop-up sýningu, sem ferðast um landið í sumar, en hefst í Listasafni Árnesinga. Þema sýningarinnar er Hvítur. Öll umgjörð og verk sýningarinnar verður Hvít, á vegg eða gólfi.

Fyrri greinVeiðisafnið alltaf feykivinsælt
Næsta greinGul viðvörun á Suðurlandi