Fjör í Flóa um helgina

Í kvöld verður kvöldganga á bökkum Þjórsár. Ljósmynd/Flóahreppur

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin í Flóahreppi um helgina. Það eru Flóahreppur, Ungmennafélagið Þjótandi og kvenfélögin í Flóahreppi sem standa að hátíðinni.

Í dag er opið hús í Ullarvinnslunni, Gallerí Flóa, skrifstofu Flóahrepps og leikskólanum Krakkaborg. Í Tré og list verður tónlist og leiðsögn og í Gallerí Vola sýna Anna Gunnarsdóttir og Þórdís Þórðardóttir listaverk. Þá er hægt að skoða listaverk eftir Liston í Grjótgarðinum við Volatún.

Í kvöld verður hægt að skoða geitur hjá Helenu á Skálatjörn og síðan verður kvöldganga á bökkum Þjórsár og eftir hana ætla Óli og Ingjaldur í Ferjunesi 3 að opna skúrinn fyrir gestum og gangandi.

Laugardagurinn byrjar á jóga í Þjórsárveri, opið hús verður í Ullarvinnslunni, Gallerí Flóa, Gallerí Vola og Tré og list. Í hádeginu hefst hin margrómaði kökubasar og blómasala kvenfélaganna á Þingborg og eftir hádegi mun ungmennafélagið halda utan um skemmtilega fjölskyldudagskrá, þar sem meðal annars verður kökuskreytingarkeppni fyrir krakka og frambjóðendur í hreppnum munu keppa í hreystikeppni.

Á laugardagskvöld verður kosningavaka á Þingborg, gestum boðið upp á grillsmakk og lifandi tónlist.

Fyrri greinBreytum til og verum fagleg
Næsta greinKæru Hvergerðingar