Fjöltyngt ljóðakvöld í listasafninu

Í tilefni af Norrænum margmálamánuði standa Bókabæirnir austanfjalls í samvinnu við Gullkistuna fyrir fjöltyngdu ljóðakvöldi í kvöld, miðvikudagskvöld, í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Dagskráin hefst klukkan 20:00 en húsið opnar 19:30. Sem fyrr verða flutt ljóð á ýmsum málum, en flytjendur eru fólk sem hefur flust til Íslands til lengri eða skemmri dvalar.

Hélène Dupont mun flytja ljóð á frönsku og íslensku, Bridget Ýr McEvory flytur ljóð frá Íralandi og Evelina Sundell Jóhannesson er fulltrúi Skandinavíu að þessu sinni. Violette Meyssonnier er einnig frönskumælandi, svo boðið verður upp á fjölbreytta nálgun á franska tungu.

Frá Sýrlandi koma þau Ahmad Abed Al Rahman Haj Naasan, Fadwa Moohamad Kadre Alsoufi, Abed Al Rahman Haj Naasan, Mouhamand Mashehour Al Aajraf og Aisha Mazhour Al Aajraf, sem munu í sameiningu flytja og endursegja ljóð frá sínu heimalandi.

Auk þess mun Estelle Burgell flytja nýort ljóð sem aðstandendum ljóðakvöldsins barst frá bandaríska skáldinu Cynthiu Arrieu-King, sem hefur í tvígang dvalist á Gullkistunni á Laugarvatni.

Sérstakur gestur kvöldsins verður Jón Magnús Arnarsson, einn af forsprökkum Tjarnarslammsins í Reykjavík og alþjóðlegur flytjandi á ljóðaslammi. Jón Magnús hefur farið fyrir Íslands hönd á slammhátíðir víða um Evrópu og er nýlega kominn frá Indlandi þar sem hann flutti einnig slammljóð. Ljóð hans eru á íslensku og ensku, auk þess sem hann mun verða til viðtals fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast um slamm.

Í sölum listasafnsins standa nú yfir tvær myndlistarsýningar: Undirstaða og uppspretta sem eru valin verk úr eigu safnsins og Þjórsá Borghildar Óskarsdóttur sem byggir á margra áratuga rannsókn Borghildur á sambúð manns og náttúru við þessa lengstu á Íslands. Sýningarnar verða opnar gestum ljóðakvöldsins áður en dagskráin hefst og í hléi.

Listasafnið sér um kaffi og konfekt. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Umsjónarmenn dagskrárinnar eru Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Özur Snorrason.