Fjölsótt jarðhitasýning í Hellisheiðarvirkjun

Góð aðsókn hefur verið að jarðhitasýningu Orkusýnar ehf. í Hellisheiðarvirkjun, en eitt ár er nú liðið síðan fyrirtækið tók við rekstri sýningarinnar við breytingar á hlutverki Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrirtækið Orkusýn ehf. er í eigu fyrrum starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur, þeirra Auðar Bjargar Sigurjónsdóttur og Helga Péturssonar.

Á jarðhitasýningunni er gerð grein fyrir uppruna jarðhitans, jarðfræði Hengilsvæðisins og framleiðsluferli Hellisheiðarvirkjunar, auk þess sem gestir geta séð inn í vélasali virkjunarinnar og kynnt sér margvíslegar upplýsingar um hana á snertiskjám.

Útivist hefur verið stunduð á Hengilssvæðinu í fjölda ára, um svæðið er net merktra gönguleiða af ýmsum erfiðleikastigum. Göngukort af svæðinu er fáanlegt í Hellisheiðarvirkjun. Í vetur hafa fjölmargir lagt leið sína um svæðið bæði fótgangandi og á gönguskíðum.

Mikill meirihluti gesta eru erlendir ferðamenn og skólahópar frá nágrannalöndunum, en einnig fjölmargir vísindamenn, verkfræðingar og áhrifamenn úr stjórnmálum og umhverfismálum alls staðar að úr heiminum þar sem jarðhita er að finna og nýting möguleg.

Nýlega var komið fyrir steinum og steindum úr safni dr. Einars Gunnlaugssonar, jarðfræðings á þriðju hæð í kynningarrýminu og þar sýnir Þuríður Sigurðardóttir, listmálari, nokkur verka sinna. Orkusýn ehf. vill með því leggja áherslu á þá samþættingu menningar og vísinda sem tíðkast í virkjunum um allt land.

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun er opin alla daga frá kl. 09:00 til 17:00. www.orkusyn.is

Fyrri greinÓnýtur eftir eldsvoða
Næsta greinEldur í rafmagnskassa