Vetrarfrísdaga skólanna 18. – 21. október býður Listasafn Árnesinga börnum og fjölskyldum þeirra að heimsækja safnið og taka þátt í ýmsu sem þar er á dagskrá.
Boðið er upp á fjársjóðs spurningarleik í tengslum við sýningar safnsins. Leikurinn er með þeim hætti að börn og fullorðnir ganga saman um sýningarrýmið og leita að svörum við laufléttum spurningum fjársjóðs- ratleiksins. Svörunum er síðan komið fyrir í fjársjóðskistu sem í lok dags 21. október verður opnuð, einn heppinn þátttakandi dreginn út og fær sá fjársjóðspakka að launum, en allir þátttakendur fá einnig glaðning að launum.
Í barna- og fjölskyldukróknum verður líka sjálfbær smiðja þar sem leiðbeiningar liggja frammi hvernig búa á til popp-upp fjársjóðskort. Allt efni sem þarf er þar til staðar þátttakendum að kostaðarlausu. Í fjölskyldukróknum er einnig leir til að móta eitt og annað skemmtilegt, teikniblöð og ýmis teikniáhöld.
Föstudaginn 19. október verður haldið upp á 55 ára afmæli safnsins. Boðið verður upp á kaffi og konfekt á afmælisdaginn 19. okt.
Sýningin Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember nk og sýningin Frá mótun til muna til 28. október. Safnið er safnið opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.