Fjölmenni á fjölmenningarhátíð

Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson

Síðastliðinn laugardag, þann 10. maí, fór fram fjölmenningarhátíð Rangárþings í íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Hátíðin var haldin af sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Rangárþingi ytra.

Alls sýndu fulltrúar frá fjórtán löndum fjölbreytta menningu svæðisins á hátíðinni en það voru: Moldóva, Rúmenía, Úkraína, Austurríki, Slóvakía, Tékkland, Pólland, Brasilía og Kólumbía, Mexíkó, Frakkland, Ísland, Portúgal og Tæland.

Rúmlega 600 manns á hátíðinni
Það má með sanni segja að hátíðin hafi öll verið sú glæsilegasta, þátttakendur lögðu mikið á sig við að skapa skemmtilega stemmingu á sínum borðum þar sem hægt var að fræðast um sögu og menningu þessara þjóða. Fullt var út úr dyrum og má áætla að rúmlega 600 manns hafi heimsótt hátíðina.

Matur spilaði stórt hlutverk á hátíðinni en allar þjóðirnar buðu upp á mat frá sínum heimalöndum. Það fór því enginn svangur út frá hátíðinni og var það heldur svo að gestir komust ekki yfir það að smakka á öllum þeim kræsingum sem í boði voru.

Fjölbreytt dagskrá var einnig á sviði, þar sem þjóðir komu fram með atriði líkt og söng og fiðluspil sem og dans og nemendur frá Tónlistarskóla Rangæinga spiluðu og fluttu lög frá ýmsum þjóðum.

Ómetanlegt samstarf samfélagsins
Georgina Anne Christie, formaður fjölmenningaráðs Rangárþings eystra, var að vonum glöð með viðtökurnar.

„Að hátíð sem þessari koma margar hendur. Mig langar að þakka þeim þátttakendum sem lögðu mikið á sig við að kynna sig og sín þjóðlönd – án þeirra væri ekki hægt að halda slíka hátíð. Mig langar líka að þakka nefndarfélögum mínum í fjölmenningarráðinu sem átti veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar, þau Jana, Ioan og Marlena. Justyna Lis, kennari í Hvolsskóla, var okkur líka ómetanleg stoð. Einnig er vert að þakka Sláturfélagi Suðurlands kærlega fyrir þeirra stuðning við hátíðina.“

Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Ljósmynd/Magnús Kári Ingvarsson
Fyrri grein„Finnst rosalega gaman að fá fólk til að hlæja“
Næsta greinÁrmann í úrvalsdeildina eftir spennandi oddaleik