Fjölbreyttar sýningar á Blómstrandi dögum

Ýmsar sýningar og markaðir eru í gangi á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði um helgina.

Í Listasafni Árnesinga stendur yfir sumarsýningin Myndin af Þingvöllum. Verk yfir 50 listamanna sem spanna tímabilið 1782 – 2011.

Á Bókasafninu, Sunnumörk, verður hinn árlegi bókamarkaður og myndlistarsýning Sæunnar Freydísar Grímsdóttur. Opnunarathöfn verður í dag kl 18 en þá mun Sæunn lesa upp ljóð og Hörður spila ljúfa gítartóna. Hressing í boði.

Í Þorlákssetri, húsi eldri borgara verður sýningin Hveragerðisskáldin. Í Garðyrkjustöð Ingibjargar verður málverkasýning Bjargar Júlíönu Árnadóttur og á laugardeginum verður kynning og sala á handverki og heilsuvörum. Ingibjörg býður gestum upp á kaffi og kleinur frá kl 15.

Veglegur handverksmarkaður verður í handverkshúsi grunnskólans við Breiðumörk og grænmetismarkaður á leikhúsplaninu við hliðina á Eden.

Á lóð grunnskólans verður Hjálparsveit skáta með sýningu og verður öllum boðið að spreyta sig í kassa- og turnklifri.

Fyrri greinÆgir ekki í úrslitakeppnina
Næsta greinGeimstöðvarhátíð í Landmannalaugum