Fjölbreytt vetrarstarf í leikhúsinu á Selfossi

Vetrarstarf Leikfélags Selfoss hófst í síðustu viku með árlegum haustfundi þar sem dagskrá vetrarins var kynnt. Af nógu verður að taka í leikhúsinu við Sigtún í vetur.

Selfyssingar stefna að því að setja upp gamanleikrit eftir áramót en félagið hefur ráðið til sín leikstjórann Jón Stefán Kristjánsson. Hann hefur unnið með LS nokkrum sinnum áður á mjög vinsælum sýningum, m.a. Með vífið í lúkunum sem sló öll aðsóknarmet á sínum tíma.

Kynnt var til sögunnar höfundakvöld sem haldin verða reglulega í vetur þar sem áhugasamir geta komið saman og hitt aðra sem vilja prófa að skrifa leikverk eða sýna tilbúin verk. Fyrsta höfundakvöldið verður miðvikudaginn 24. september. Einnig er hið sívinsæla laugardagskaffi hafið á nýjan leik en það er kaffispjall í leikhúsinu á laugardagsmorgnum fram að áramótum.

Þá verða tvö verk frá Leikfélagi Selfoss flutt á NEATA stuttverkahátíðinni í Mosfellsbæ þann 4. október. Verkin hafa áður verið sýnd á Hugarflugi hjá Leikfélagi Selfoss en næsta Hugarflug verður haldið um mánaðarmótin október-nóvember. Þar er opin vettvangur fyrir fólk að mæta með eigin verk eða taka þátt með öðrum, syngja, dansa, fara með ljóð, sögur eða gamanmál.

Einnig er í undirbúningi að hittast í leikhúsinu og syngja saman gömul og ný leikhúslög. Fyrsta söngstundin verður laugardaginn 11. október kl. 13.

Allir þessir viðburðir verða svo auglýstir nánar, á nýrri heimasíðu leikfélagsins og á Facebooksíðu LS, um leið og þeir nálgast á dagatali.

Fyrri greinBílar í Árnessýslu í 100 ár
Næsta greinVindmyllurnar í Þykkvabæ gangsettar