Fjölbreytt dagskrá í Skálholti

Sumartónleikar í Skálholti halda áfram helgina 27.-29. júlí og kennir ýmissa grasa. Þetta er þriðja og næstsíðasta tónleikahelgin í sumar.

Starfið er umfangsmikið og auk tónleika eru haldnir fyrirlestrar á laugardögum klukkan 13 í Skálholtsskóla. Fyrirlesturinn þann 28. júlí nefnist Tónlist Bachs á ýmsa kanta og það er Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sellóleikari sem ræðir um margbrotin meistaratök tónskáldsins Johanns Sebastians Bachs á sviði tónlistarinnar.

Föstudaginn 27. júlí klukkan 20 halda þeir Vladimir Waltham sellóleikari og Brice Sailly semballeikari tónleika í Skálholtskirkju sem bera yfirskriftina Dásemdir einverunnar. Þeir eru báðir Frakkar, Vladimir starfar í Þýskalandi með búsetu í Berlín en Brice í París. Verkin sem þeir flytja eru eftir François Couperin, Jean-Baptiste Barrière, Jean-Baptiste Canavas og Michel Corrette.

Í þau fjörtíu og þrjú ár sem Sumartónleikar í Skálholti hafa starfað, hefur tónlist eftir Bach verið áberandi og nú hefur hópurinn Corpo di Strumenti undir forystu Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur sett saman efnisskrá fyrir Sumartónleikana sem hún nefnir Úr smiðju Bachs. Á þessum tónleikum mætast Corpo di Strumenti, Barokkbandið Brák og Eyjólfur Eyjólfsson tenór og mun listafólkið flytja nokkra gullmola úr smiðju meistarans. Þessir tónleikar verða haldnir á laugardag þann 28. júlí klukkan 14.

Laugardaginn 28. júlí klukkan 16 kemur Barokkbandið Brák fram með tónlist frá klassíska tímabilinu. Þar verða leiknir kvartettar eftir Boccherini, Haydn og Mozart. Þessi efnisskrá verður endurtekin á sunnudag 29. júlí klukkan 14.

Fyrri greinValtýr ráðinn sveitarstjóri í Ásahreppi
Næsta greinGrace Rapp í Selfoss