Fjölbreytt dagskrá á Vori í Árborg

Sérstök opnun menningarhátíðarinnar Vors í Árborg mun fara fram á morgun, fimmtudaginn 17.maí kl. 13:00 í aðalanddyri Hótel Selfoss.

Þar munu m.a. ungmenni úr félagsmiðstöðinni Zelsíuz koma fram með tónlistaratriði sem og Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður og rithöfundur sem mun lesa upp úr bókinni sinni „Fólk og fréttir – atómsprengjan og önnur tíðindi“. Í bókinni segir m.a. frá þorskastríðinu, Suðurlandsskjálftum og Stuðmönnum.

Samhliða opnun Vors í Árborg munu þrjár sýningar opna í hótelinu. Blik sýnir 52 ljósmyndir en sýning þeirra ber nafnið „Ströndin“, Valdmar Jónsson sýnir „Það sem fangar augað“ og feðgarnir Sverrir Andrésson og Bragi Sverrisson sýna hesta- og dýralífsmyndir eftir Braga og handsmíðaða „Thomsenbílinn“ og uppgerðan trérennibekk eftir Sverri. Allir velkomnir og boðið upp á léttar veitingar.

Fjölmargir aðrir viðburðir verða í gangi yfir helgina og má það t.d. nefna Listasmiðju náttúrunnar sem verður með námskeið á sunnudaginn við Gimli á Stokkseyri en þar er einnig málverkasýning og handverksmarkaður.

Byggðasafn Árnesinga býður upp á sumarsýninguna „Sunnlendingar á Ólympíuleikum“ og Smíðadag í Sjóminjasafninu. Listamenn opna vinnustofur í öllum byggðarkjörnum og Leikfélag Selfoss er með opið hús í leikhúsinu við Sigtún. Jón Ingi sýnir verk á Gónhól, mæðgurnar Elísabet og Björg sýna í Gesthúsum, Þór Sigmundsson sýnir verk sín undir Ölfusárbrú og fleiri sýningar eru um allt sveitarfélagið.

Íþrótta- og félagasamtök taka virkan þátt og býður Björgunarfélag Árborgar í fjallgöngu, Golfklúbbur Selfoss er með opin golfdag, íþróttafélag FSu er með íþróttaþrautir, Hestamannafélagið Sleipnir býður krökkum á hestbak í miðbæjargarðinum á Selfossi, Umf. Selfoss heldur Grýlupottahlaup og Umf. Eyrarbakka Hópshlaupið. Síðan býður Hjólað í Árborg upp á hjólaferð og hjólaþrautir í miðbæjargarðinum en þar verður markaðsstemning fimmtudag og laugardag milli 13:00 og 17:00.

Það er fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í vændum þessa helgi og vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi. Dagskrár liggja frammi á helstu stöðum í sveitarfélaginu.

Fyrri greinLeyft að tjalda við Sunnulækjarskóla
Næsta greinÁrborg og Ægir úr leik