Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Lights – Fantastic Film Festival verður haldin í þriðja sinn dagana 30. október til 2. nóvember. Hátíðin er nú haldin á Stokkseyri í fyrsta sinn, eftir tvö vel heppnuð ár á Akureyri.
Á hátíðinni, sem haldin er í Fisherinn – Culture Center í menningarverstöðinni Hólmaröst verða sýndar yfir 50 alþjóðlegar stuttmyndir sem keppa til veglegra verðlauna. Undir yfirheitið „fantastic“ falla ævintýramyndir, fantasíur, hrollvekjur, vísindaskáldskapur og teiknimyndir, svo eitthvað sé nefnt.
Þematengdir viðburðir hátíðarinnar eru t.d. Fantastic Film – Pub-quiz, hrekkjavökubúningapartý, H.C. Andersen spjallborð og fjölskylduvænt hrekkjavökubíó. Fjölskyldan getur þannig öll fundið eitthvað „fantastic“ við sitt hæfi.
Frítt inn á alla viðburði
Frítt inn á alla viðburði og sýningar hátíðarinnar, sem hefst með opnunarathöfn kl. 18:30 á fimmtudag, þar sem Bragi Bjarnason bæjarstjóri mun setja hátíðina formlega.
Þrjár sýningar verða á föstudag, sú fyrsta kl. 15:20 en hún er fjölskylduvæn; hrekkjavökubíó, teiknimyndir og ævintýri. Allir krakkar eru hvattir til að mæta í búningunum áður en þeir fara í grikk og gott.
Hægt er að sjá yfirlit yfir myndirnar á hverri sýningu hér.
Á laugardag verða sömuleiðis þrjár sýningar en kl. 14 verður opið spjallborð um „Fantastic“ handritasmíð. Um kvöldið er svo hrekkjavökubúningapartý fyrir fullorðna, þar sem óvættir og einhyrningar eru velkomnir.
Sunnudagurinn er tileinkaður myrku ímyndunarafli H.C. Andersen, íslenskum bókmenntaarfi og „fantastic“ sagna- og kvikmyndagerð. Lokaathöfnin verður svo kl. 19 á sunnudag þar sem dómnefndir tilkynna sigurvegara hátíðarinnar.
Hægt er að finna nánari upplýsingar á heimasíðu hátíðarinnar og fylgjast með samfélagsmiðlum fyrir nýjustu fréttir og viðburðauppfærslur.

