Fjölbreytt dagskrá á Bryggjuhátíðinni um helgina

Ljósmynd/Bryggjuhátíð

Bryggjuhátíðin á Stokkseyri fer fram um helgina með fjölbreyttri og líflegri dagskrá fyrir alla aldurshópa. Hátíðin hefst í dag og stendur fram á sunnudag með tónlist, leiksýningu, hoppuköstulum, markaði, listasýningum og ýmsum uppákomum.

Laugardagurinn verður þéttskipaður og skemmtilegur. Fjölskyldufólk ætti ekki að láta leikhópinn Lottu fram hjá sér fara, en þau sýna Hróa Hött á túninu við sjoppuna. Strax að því loknu taka við hoppukastalar, markaðsstemning og ýmis skemmtun. Skátaland býður upp á klifurvegg og á Stokkseyrarvelli verður spennandi fótboltaleikur þar sem meistaraflokkur Stokkseyrar mætir RB.

Dagskráin heldur svo áfram á bryggjunni þar sem kvöldið verður í anda tónlistar og gleði. Kl. 20:00 hefst kvölddagskráin með brennu og tónleikum, BMX Brós skemmta og Nammibræður verða á svæðinu. Kl. 20:30 stíga Júlí Heiðar og Dísa á svið og síðan tekur trúbadorinn Hlynur Snær við kl. 21:00. Draugabarinn verður svo opinn fram á nótt og mun Hlynur Snær sjá um að halda uppi stuðinu.

Auk hátíðardagskrárinnar verður ýmislegt í boði allan daginn víðs vegar um Stokkseyri. Þar má nefna kayakferðir, frían aðgang að sundlauginni fyrir 17 ára og yngri, opið verður í Veiðisafninu, Gallerí Gimli og Gallerí Svartakletti og gróðrarstöðinni Heiðarblóma. Fjöruborðið verður opið fyrir gesti og gestgjafa sem vilja njóta sjávarfangs og rólegrar stemningar.

Á sunnudeginum heldur hátíðin áfram með svokölluðum „Degi fyrirtækja og safna Stokkseyrar“, þar sem áfram verður opið í helstu söfnum, sundlaug og galleríum þorpsins. Þá er kjörið tækifæri til að skoða menningu og mannlíf þessa litríka sjávarþorps á rólegri nótum.

Fyrri greinÆgir jók forskotið á toppnum
Næsta greinHamingjan við völd í H verslun