Fjögur verkefni hlutu styrk þegar markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd Rangárþings ytra úthlutaði styrkjum í fyrri úthlutun ársins úr menningarsjóði sveitarfélagsins.
Níu umsóknir bárust, samtals að upphæð rúmlega 3,3 milljóna króna en til úthlutunar voru 625 þúsund krónur.
Dana Ýr Antonsdóttir og Arilíus Marselínuson hlutu hæstu styrkina, 200 þúsund krónur hvort.
Verkefni Dönu Ýrar nefnist Innst inni en það er nýr íslenskur söngleikur saminn af tveimur konum í Rangárþingi. Öll tónlistin er frumsamin og hluti hennar hefur ekki komið út. Umfjöllunarefnið er tengsl milli fólks, leitin að þeim og leiðir til að skapa þau. Allir þátttakendur og listrænir stjórnendur sýningarinnar eru úr Rangárvallasýslu.
Arilíus fær styrk fyrir verkefnið Fólkið í Rangárþingi, sem er bók sem inniheldur safn svarthvítra portrettmynda sem fanga einstaklingana sem móta samfélagið. Með myndunum verða textar og ljóð eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem lýsa daglegu lífi þeirra. Þetta verkefni er virðingarvottur til nauðsynlegra en oft ósýnilegra einstaklinga og gefur þeim rödd til að segja sínar sögur.
Þá hlaut Sólrún Bragadóttir 150 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Syngjum saman á Hellu. Á tónleikunum verður fallegum röddum á svæðinu tækifæri á að skína. Dagskráin verður fjölbreytt þar sem sungnar verða margar klassískar perlur í einsöng og tvísöng, þjóðvísur og söngleikjalög.
Einar Þór Guðmundsson hlaut 75 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Óður til ljóðsins. Um er að ræða tvenna tónleika þar sem ljóðasöngur er í aðalhlutverki. Verkefninu er ætlað að kynna fyrir yngri kynslóðum og foreldrum klassíska ljóðsönginn og verður farið með þessar kynningar í Tónlistarskóla Árnesinga og Tónlistarskóla Rangæinga.