Fjögur bókasöfn á Suðurlandi í samstarfi

Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur, mun fjalla um bókaútgáfu síðasta árs á fjórum bókasöfnum á Suðurlandi í kvöld og á morgun.

Þetta er hluti af samstarfsverkefni bókasafnanna sem styrkt er af Menningarráði Suðurlands. Án efa verður ánægjulegt að hlusta á Jón Yngva fjalla um jólabókaflóðið og fleiri bækur sem komu út á árinu og spjalla á eftir.

Umfjöllunin verður í kvöld, fimmtudaginn 21. febrúar kl. 18 á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn og kl. 20 á Bókasafninu í Hveragerði.

Á morgun, föstudaginn verður Jón Yngvi kl. 17:30 í Bókasafni Árborgar á Selfossi og kl. 20 á Héraðsbókasafni Rangæinga á Hvolsvelli.

Jón Yngvi er bókmenntafræðingur frá HÍ og stundaði framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur gagnrýnt bækur í sjónvarpi, blöðum og tímaritum, haldið fjölda fyrirlestra og kennt bókmenntir við Háskóla Íslands. Hann er einn af höfundum íslenskrar bókmenntasögu, þar sem hann skrifaði um bókmenntir og stjórnmál á fjórða áratug tuttugustu aldar og íslenska skáldsagnagerð frá 1970 til samtímans.

Fyrri greinÁrborg segir sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands
Næsta greinSkráning í Músiktilraunir hafin