Fimm sunnlensk verkefni fengu úr Tónlistarsjóði

Frá Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Mynd úr safni.

Sumartónleikar í Skálholti og Töfrahurð eru meðal þeirra sem fengu úthlutað úr fyrri úthlutun Tónlistarsjóðs fyrir árið 2019.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu tónlistarráðs um úthlutun úr sjóðnum fyrir fyrra tímabil ársins. Tónlistarráð skipa þau Arndís Björk Ásgeirsdóttir, formaður, Ragnhildur Gísladóttir og Samúel Jón Samúelsson.

Alls bárust 132 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar. Sótt var um tæpar 140 milljónir kr. en til úthlutunar úr sjóðum eru 69 milljónir króna. Þar af eru 21 milljón í föstum samningum til ársins 2020. Til úthlutunar í þessari fyrri úthlutun eru því 24 milljónir.

Alls fengu 55 verkefni styrki, þar af nokkur á Suðurlandi. Meðal þeirra voru Töfrahurð sf fyrir verkefnið Börnin tækla tónskáldin, vilyrði fyrir 500 þúsund króna styrk.

Björg Þórhallsdóttir fékk 300.000 króna styrk fyrir tónlistarhátíðina Englar og menn í Strandarkirkju og Rut Ingólfsdóttir sömu upphæð fyrir menningarstarf að Kvoslæk í Fljótshlíð. Þá fékk Kammerkór Suðurlands 200.000 króna styrk fyrir verkefnið Ör-lög Suðurlands.

Nokkur verkefni fengu þriggja ára samning og voru Sumartónleikar í Skálholti eitt þeirra. Sumartónleikarnir fá 3,5 milljónir króna árlega úr sjóðnum fyrir árin 2018-2020.

Fyrri greinRútuferðir í Bláfjöll frá Selfossi
Næsta greinÞrír bílar í hörðum árekstri á Skeiðarársandi