Fetað í slóð Þórdísar ljósmóður

Á morgun, laugardag, kl. 15 verður söguganga um slóðir Þórdísar ljósmóður frá Húsinu á Eyrarbakka.

Gangan er framlag Byggðasafns Árnesinga til Aldamótahátíðar á Eyrarbakka, sem stendur allan þann dag frá morgni til kvölds.

Það er Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Ljósmóðurinnar, sögulegrar skáldsögu um Þórdísi Símonardóttur, sem mun rölta með föruneyti um Bakkann og segja frá húsum og fólki sem tengdist lífi ljósmóðurinnar.

Þórdís ljósmóðir bjó á Eyrarbakka 1883-1933 og tók á móti hátt í tvö þúsund börnum. Hún lét sig meira varða ýmis samfélagsmál en konur gerðu almennt á þeim tíma og hlaut oft bágt fyrir.

Lagt er upp frá Húsinu kl. 15 og tekur gangan um klukkutíma. Fyrir eða eftir gönguna er svo upplagt að skoða sýninguna sem nú stendur yfir í borðstofu Hússins. Sýningin ber yfirskriftina Ljósan á Bakkanum og fjallar um líf og störf Þórdísar ljósmóður, aðstæður fæðandi kvenna og kjör ljósmæðra á þeim tíma sem Þórdís var ljósmóðir á Eyrarbakka. Höfundur sýningarinnar er Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari.

Allir eru velkomnir í gönguna og er ókeypis. Boðið er upp á aldamótaafslátt í tilefni dagsins.

Heildardagskrá Aldamótahátíðarinnar er að finna á www.menningarstadur.123.is, www.raudahusid.is, www.eyrarbakki.is og á www.arborg.is.

Fyrri greinSendibíllinn fór yfir á rangan vegarhelming
Næsta greinÁrbakki fallegasta gata Árborgar