„Feluleikir“ fjórða bók Lilju

Lilja les upp í Hannesarholti þann 15. nóvember síðastliðinn. Ljósm/RJJ.

Lilja Magnúsdóttir á Kirkjubæjarklaustri sendi fyrr í mánuðinum frá sér skáldsöguna Feluleikir, með undirtitilinn „Það er svo mikil einlægni á fjöllum“.

Lilja var kennari og kynningarfulltrúi en síðustu mánuði hefur hún setið við skriftir en þetta er hennar fjórða bók. Áður hefur hún sent frá sér bækurnar Svikarann, Gaddavír og gotterí og Friðarsafnið.

Lilja með nýju bókina. Ljósmynd/ÁGE

Feluleikir er bæði spennu- og fjölskyldusaga og leiðir lesendur vítt um landið, meðal annars um Suðurland, Reykjavík, Öræfin og heiðar Austurlands.

Í Feluleikjum sogast aðalpersónan, Arna, inn í atburðarás sem hún hefur enga stjórn á og veit ekki hverjum má treysta. Hún er að skrifa kvikmyndahandrit fyrir elskhuga sinn, sem er sjarmerandi á allan hátt en hún óttast að hann eigi vingott við fleiri konur. Í ofanálag á hún flókna fjölskyldu þar sem erfið mál hafa í gegnum tíðina verið sett inn í skáp eða þeim sópað undir teppi og nýjar vendingar varpa ljósi á það sem lengi hefur verið falið.

Lilja mun lesa upp úr Feluleikjum á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri í dag, miðvikudag, ásamt fleiri höfundum, og vonar að sem flestir úr nærsamfélaginu láti sjá sig.

 

Fyrri greinMargt um að vera á aðventunni í Árborg
Næsta greinJólamarkaður á Laugarvatni á laugardaginn