Söngvarinn Ágúst sendir frá sér nýtt lag í dag sem er ábreiða af Chris de Burgh laginu A Spaceman Came Travelling, eða Geimferðalangur, eins og það hét í útgáfu Frostrósa.
„Frostrósir gáfu lagið út árið 2008 og er það alveg risastórt með þvílíkum söngdívum, stórhljómsveit og nánast held ég öllum kórum landsins, svo að ég ákvað að fara algjörlega í hina áttina og taka þetta upp bara með gítar og söng,“ segir Ágúst í samtali við sunnlenska.is.
„Við fórum inn í Grundarkirkju í Eyjafjarðarsveit til að fá svona þennan hátíðlega kirkju hljóðheim og þetta heppnaðist mjög vel fannst mér!“
Geimferðalangur hefur alltaf verið uppáhalds jólalag Ágústs og hann segir gaman að vera búinn að setja sinn stíl á það og gefa það út. En auðvitað þurfti hann að fá blessun frá einni Frostrósanna fyrst.
„Ég henti skilaboðum á eina af Frostrósunum miklu, hana Regínu Ósk og sagði að það þyrfti nú einhver af þeim drottningum að heyra þetta fyrst og hún var bara mega sátt með þetta,“ segir hann hlæjandi.
Ný plata framundan og gigg með Ásgeiri Trausta
Ágúst er búinn að eiga svakalega viðburðaríkt ár og það næsta verður enn stærra.
„Geimferðalangur er fimmta lagið sem ég gef út á þessu ári og er eiginlega bara frábært uppgjörslag á þessu gjörsamlega bilaða ári sem ég hef átt, náttúrulega bara Söngvakeppnin og allt sem því fylgdi, og svo fleiri skemmtileg verkefni tengd sjónvarpinu og tónlistinni. Síðustu mánuði hef ég sett fullan fókus á að semja meiri tónlist og það er mjög gaman að geta sagt frá því að næsta vor kemur 8-10 laga plata og svo Íslandstúr í kjölfarið af þeirri útgáfu,“ segir Ágúst en verkefnum þessa árs er samt ekki en lokið.
„Það eru jólagigg hér og þar og svo fæ ég þann heiður að hita upp fyrir Ásgeir Trausta á Græna hattinum þann 18. desember. Það verður gaman að taka Geimferðalangur fyrir fullan Hatt,“ segir Ágúst að lokum.

