„Fannst vanta vettvang fyrir listafólk til að vera sýnilegra“

Diljá Böðvarsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Gefjun listamarkaður verður haldinn fimmtudaginn 16. nóvember í Tryggvaskála á Selfossi. Á markaðnum munu ellefu listamenn, flestir af Suðurlandi, selja verk sín.

„Hugmyndin að Gefjuni kviknaði um áramótin. Út frá því að ég fór að velta fyrir mér möguleikum fyrir listafólk að koma sér á framfæri í sinni heimabyggð,“ segir Diljá Böðvarsdóttir, í samtali við sunnlenska.is, en hún hefur veg og vanda að markaðinum.

„Síðan miðbærinn opnaði á Selfossi hefur orðið heilmikil uppsveifla í mannlífinu, en mér fannst vanta svolítið vettvang fyrir listafólk til að vera sýnilegra. Markmiðið með þessum markaði er að listafólk og hönnuðir hér á Suðurlandi geti sýnt og selt verk sín og hönnun. Þar að auki skiptir það auðvitað líka miklu máli fyrir fólk í listageiranum að kynnast hvert öðru og geta átt samskipti sín á milli, svo það er einnig pælingin á bak við markaðinn.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Diljá sér um að skipuleggja listamarkað en hún hefur sjálf verið þátttakandi í einum slíkum. „Ég tók þátt á markaði sem var partur af listahátíðinni Rökkvan í Garðabæ í haust. Þaðan fékk ég mikinn innblástur hvað varðar skipulag og slíkt. Þetta er tilraunaverkefni, en mér heyrist á fólkinu í kringum mig að það sé mikill áhugi fyrir þessu, svo þetta er bara mjög spennandi.“

Jólakort eftir Diljá. Ljósmynd/Aðsend

Ungt fólk listhneigt
Á meðal listamanna sem verða með verk sín til sölu á Gefjun listamarkaði eru Dúdda, Steinunn Birna, skartgripahönnuðirnir á bak við Afi & Ég – og að sjálfsögðu Diljá sjálf. „Markaðurinn verður mjög fjölbreyttur. Það verða málverk til sölu, keramikmunir, ljósmyndir og meira að segja fatnaður. Þar að auki eru skartgripir, verk unnin úr ull og allskonar fleira skemmtilegt.“

Diljá segir að það sé mjög mikilvægt að styðja við íslenska listamenn og gera list þeirra sýnilega. „List er svo stór partur af menningunni sem mikilvægt er að rækta og styðja. Það er svo margt ungt fólk, börn og unglingar, sem er mjög listhneigt og skapandi. Sá hópur þarf að sjá að það er vel hægt að sinna listinni og fá útrás fyrir sköpunargleðina. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að vettvangurinn sé til staðar í samfélaginu. Þá fá fleiri að njóta listarinnar.“

Kertastjaki eftir Steinunni. Ljósmynd/Aðsend

Hvert eintak alveg einstakt
Diljá segir að það sé mikilvægt að styðja sjálfstæða listamenn. „Auðvitað eru margir sem kjósa að fjárfesta í list. Þó finnst mér það vera svolítið „lenskan“ hérna á Íslandi að fólk fylgi alls konar trendum og slíku. Þá er oft um fjöldaframleiddar vörur að ræða sem við vitum oft ekki hverjir framleiddu, hönnuðu eða hvernig framleiðslan fór fram. Kosturinn við að styðja sjálfstæða listamenn er að því fylgir ákveðið gagnsæi hvað varðar hönnunina og handverkið. Svo er það líka skemmtilegra, því oftast er hvert eintak alveg einstakt og hefur mikil vinna verið lögð í verkið.“

Sem fyrr segir verður Gefjun listamarkaður haldinn í Tryggvaskála, Selfossi og opnar klukkan 17. „Þau í Tryggvaskála ætla að hafa barinn opinn og verða með tilboð á drykkjum. Markaðurinn er líka haldinn sama kvöld og kveikt verður á jólaljósunum í bænum svo það er tilvalið að taka sér góða göngu og kíkja svo á alla fínu listina sem verður í boði. Svo mæli ég með að fylgjast með undirbúningnum og kynna sér listafólkið sem tekur þátt á markaðnum á Instagram síðunni okkar,“ segir Diljá að lokum.

Afi & Ég hanna skartgripi úr gamalli mynt. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„Þakklát og ánægð“
Næsta greinEinar skaut Selfoss áfram með flautumarki