Fyrir skömmu kom út barnabókin Hver á mig? eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur frá Hólum við Heklurætur.
Þetta er sjötta bók Hörpu Rúnar en hún sendi meðal annars frá sér ljóðabókina Eddu sem hún hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019.
Hugmyndin að bókinni kviknaði eftir að Harpa Rún varð mamma. „Eins og það er mikil klisja, þá gerðist það eftir að ég eignaðist barn. Honum bárust ótal margar bækur sem var ætlað að kynna grunnorðaforða sveitabarnsins og mér fannst svo margar þeirra eitthvað þunnur þrettándi,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.
Harpa Rún segir bækurnar oft vera þýddar og ekkert endilega staðfærðar. „Svo finnst mér líka alltaf svolítið óraunhæft að sjá dýrafjölskyldur hamingjusamlega saman úti í haga. Dýraríkinu er mikið til haldið uppi af einstæðum mæðrum með fjarverandi feðrum og mig langaði til að gera því skil. Eins langaði mig að þetta væri orðaforðabók með söguþræði og boðskap, sem væri gaman að fara í gegnum.“
Vildi alvöru fallegar myndir
Hugmyndin að bókinni var búin að blunda töluvert lengi í Hörpu Rún. „Það
strandaði alltaf á því að ég vissi ekki hvernig myndirnar ættu að vera. Mig langaði ekki í tölvuteikningar eða týpískar barnalegar myndir, heldur alvöru fallegar myndir sem fólk myndi vilja hafa uppi á vegg hjá sér.“
„Svo kom auðvitað í ljós að svarið hafði verið fyrir framan augun á mér allan tímann, þegar ég var að skoða myndir eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur, vinkonu mína og skólasystur, á netinu. Stíllinn hennar er fullkominn, hæfilega raunsær en líka kíminn og gerir bókina að því sem hún er.“
„Eftir að við höfðum búið til fyrstu drög þá tók ferlið nokkra mánuði. Textinn lagaði sig að myndunum sem ég vildi að hefðu sem mest frelsi til að segja söguna. Eftirvinnslan fór svo fram í sumar og prentunin í haust.“

Þess má geta að þegar Harpa Rún og Jóhanna kynntust komust þær að því að þær áttu tvær sameiginlegar vinkonur – sem hétu báðar Jóhanna.
„Við kynntumst í bókmenntafræðinni og hún kom með sinn bakgrunn úr myndlist og hefur kennt mér svo ótalmargt en sérstaklega að vera aldrei hrædd við hugmyndir sem ég fæ, heldur gá hvort þær geti orðið að einhverju meiru en fræi. Og ef ég hefði ekki lært það af henni væri þessi bók sannarlega ekki til,“ segir Harpa Rún sem er mjög þakklát fyrir allar Jóhönnurnar í lífinu sínu.
Að fá að vera maður sjálfur
Bókin Hver á mig? segir frá folaldi sem á foreldra sem eru hænur.
„Dag einn þegar folaldið er enn einu sinni að reyna að komast inn í hænsnakofann, án árangurs, verður því ljóst að líklega passar það ekki inn í fjölskylduna sína.“
„Við tekur leit þess að því hver eiginlega eigi það og hvar það eigi heima. Það fer ásamt mömmu sinni og hittir menn og skepnur á sveitabæ og kemst að því að öll eru þau allskonar – en samt ekki eins og folöld. Þetta er saga sem kennir okkur að þekkja íslensku húsdýrin en líka okkur sjálf og rétt okkar til að fá að vera eins og við erum.“
Tilvalin bók til að lesa með ömmu og afa
Harpa Rún segir að bókin henti breiðum aldri barna. „Sonur minn er búinn að sitja undir henni síðan hann var þriggja ára og ég held að með myndalestri geti hún jafnvel hentað yngri lesendum líka. Myndirnar henta líka vel þeim sem vilja aðeins hvíla sig á áreitinu, því þær eru fallegar og skemmtilegar án þess að það sé of mikið um að vera.“
„Þar sem þetta er orðaforðabók þá held ég að hún geti vel hentað krökkum upp í átta eða níu ára, en auðvitað fer það allt eftir lestrargetu og áhuga. Ég ákvað að einfalda ekki á henni málið og eflaust eru einhver orð sem fólk rekur í vörðurnar með. Þess vegna er hún tilvalin til þess að lesa með ömmu og afa, sem fá þá kærkomið tækifæri til þess að leika sér í tungumálinu ásamt börnunum.“
„Hver á mig? fæst í öllum helstu bókabúðum, á kronika.is og hjá mér. Til að mynda í útgáfuhófinu í Pennanum í Smáralind næsta sunnudag kl. 15 eða í fyrirpartíinu á Degi sauðkindarinnar í Hvolsvelli á laugardaginn,“ segir Harpa Rún að lokum.

