Færeysk stórhátíð á Stokkseyri

Um verslunarmannahelgina verður haldin færeysk stórhátíð á Stokkseyri þar sem fjölmargir færeyskir listamenn stíga á svið og skemmta fólki.

Hátíð þessi hefur verið haldin í nokkur ár og fengið góðar viðtökur þeirra sem hana hafa sótt.

Í ár hefur mikið verið lagt uppúr að hafa hátíðina fjölskylduvæna og eru fjölmargir viðburðir og afþreying ókeypis, en þar má meðal annars nefna diskótek, kajakkeppni, dorgveiðikeppni, brennu í fjörunni, flugeldasýningu, fjöldasöng með Labba svo fátt eitt sé nefnt.

Dagskráin er sneisafull af skemmtilegum og spennandi viðburðum og tónleikum frá morgni fram á nótt. Tónleikahaldið byrjar öll kvöldin klukkan níu og munu fjölmargir listamenn stíga á svið, þar má helst nefna Labba í Mánum, Jógvan, Kvönn og Guðrið. Gestir mega einnig undirbúa sig undir það að stíga færeyska dansa á milli atriða.

Stokkseyri hefur uppá margt að bjóða, meðal annars söfnin skemmtilegu, Draugasetrið, Álfa-, trölla- og norðurljósasafnið ásamt Veiðisafninu, hinn sívinsæla veitingastað Við Fjöruborðið ásamt sundlaug og frábæru tjaldsvæði þar sem útilegukortið gildir.

Dagskrá hátíðarinnar er á Facebook síðunni Færeyskir fjölskyldudagar.