Eyrún Huld sigraði í pólskri fiðlukeppni

Eyrún Huld Ingvarsdóttir og Einar Bjartur Einarsson. Ljósmynd/Tónlistarskóli Árnesinga

Eyrún Huld Ingvarsdóttir frá Þrándarholti í Gnúpverjahreppi og nemandi við Tónlistarskóla Árnesinga sigraði í sínum aldursflokki í F.Janiewicz fiðlukeppninni sem haldin var nú í desember.

Þetta er í annað skiptið sem keppnin er haldin á vegum pólska sendiráðsins í samvinnu við Tónlistarfélagið F.Chopin á Íslandi. Nemendur úr íslenskum tónlistarskólum taka þátt í keppninni en vegna COVID-19 var hætt við tónleika og nemendurnir sendu inn myndband með hljóðfæraleiknum í staðinn.

Eyrún lék 3. þátt úr Konsert í g-moll eftir Vivaldi og Salut d’amour eftir Edward Elgar, við undirleik Einars Bjarts Egilssonar. Í síðustu viku var svo tilkynnt um úrslitin, þar sem í ljós kom að Eyrún Huld hafði sigrað í sínum aldursflokki.

Í dómnefndinni voru framúrskarandi tónlistarmenn; prófessorarnir Mieczysław Szlezer, Guðný Guðmundsdóttir, Piotr Tarcholik og Janusz Wawrowski. Kennari Eyrúnar Huldar er Guðmundur Pálsson.

Hér fyrir neðan má sjá Eyrúnu Huld og Einar Bjart flytja Salut d’amour.

Fyrri greinSjö leikmenn semja við Selfoss
Næsta greinÞrenn knapaverðlaun á Suðurland og Árbæjarhjáleiga 2 keppnishestabú ársins