Eyrarbakkaljósmyndir Sigurðar kaupmanns í Húsinu

Apótek, Skjaldbreið og Ömmubær. Ljósmynd/Sigurður Kristjánsson

Á morgun, laugardaginn 27. mars kl. 14, opnar sýning á Eyrarbakkaljósmyndum Sigurðar Kristjánssonar, kaupmanns á Eyrarbakka. Sýningin er haldin í borðstofu Hússins á Eyrarbakka.

Sigurður Kristjánsson (1896-1977) kaupmaður á Eyrarbakka var áhugaljósmyndari sem tók myndir af sínu nánasta umhverfi hvort sem það var fjölskyldan, heimilið, þorpið eða hátíðarhöld. Athyglisverðar eru ljósmyndir hans af gömlum húsum og staðsetningu þeirra sem gefa einstakt sjónarhorn á Eyrarbakka um miðja 20. öld. Mörg húsanna sem Sigurður fangaði með ljósmyndavél sinni eru nú horfin.

Sýningin er unnin í samvinnu við eiganda myndanna; Jón Sigurðsson fangavörð, son ljósmyndarans.

Sýningin stendur til maíloka. Opið verður kl. 14-17 um páskana frá 27. mars til 5. apríl. Sýningin verður einnig opin á menningarhátíðinni Vor í Árborg dagana 22. til 25. apríl. Í maí verður opið kl. 14-17 laugardaga og sunnudaga. Utan þessara tíma verður hægt að skoða safnið og sýninguna eftir samkomulagi. Aðgangur ókeypis um páskana.

Fjöldatakmarkanir eru vegna sóttvarnareglna. Aðeins 10 gestir, að undanskildum börnum fædd 2015 og síðar, mega vera í hverju rými safnsins og er grímuskylda á safninu.

Sigurður Kristjánsson
Fyrri greinFimm í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinMyndi senda nokkrar Teslur til mín á Selfoss