Eva Katrín í öðru sæti í Söngkeppni Samfés

Eva Katrín Daníelsdóttir, lenti í 2. sæti í Söngkeppni Samfés. Ljósmynd/Aðsend

Eva Katrín Daníelsdóttir, frá félagsmiðstöðinni Zelsíuz á Selfossi, lenti í 2. sæti í Söngkeppni Samfés sem haldin var á Ásvöllum í Hafnarfirði síðastliðinn laugardag.

Eva Katrín söng lagið Best friend og heillaði dómnefndina og salinn með söng sínum. Sigurvegari keppninnar var Baldur Björn Arnarsson úr félagsmiðstöðinni Árseli í Reykjavík.

Söngkeppnin var hluti af SamFestingnum, tveggja daga tónlistarhátíð Samfés – Landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi. Það var mikil spenna í loftinu en hátíðin hefur ekki verið haldin undanfarin tvö ár vegna samkomutakmarkana.

Söngkeppnin fór fram á laugardeginum en á föstudagskvöldið komu um 4.000 unglingar úr félagsmiðstöðvum af öllu landinu saman á stóru balli með fjölda tónlistarmanna. Þar var einnig hægt að taka þátt í Silent Diskó, prófa nýjustu tölvuleiki og VR sýndarveruleika gleraugu, taka myndir á myndakössum, slaka á og kaupa sér eitthvað að borða.

Fyrri greinFörum varlega en djarflega
Næsta greinKirkjubyggingarsjóði Laugarvatnshjóna slitið