Eruð þið ánægð ef þið megið spyrja um eitthvað?

Sumarsýning Listasafns Árnesinga, Eruð þið ánægð ef þið megið spyrja um eitthvað?, verður opnuð í dag klukkan 15 en um er að ræða rannsóknarsýningu ungversks listfræðings; Zsóka Leposa á samskiptum íslenskra listamanna og ungverskra listamanna á áttunda áratugnum.

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var framúrstefnulistamönnum frá austantjaldsríkjunum mikið kappsmál að tengjast hinum vestræna listheimi. Á sama tíma var vettvangur íslenskrar samtíðarlistar að opnast upp, m.a. fyrir stefnum á borð við flúxus og póst-list. Það kom til vegna ört stækkandi tengslanets listamanna og gallería á borð við SÚM og listagalleríð að Suðurgötu 7. Þessi tvíhliða tilraun að auknum tengslum leiddi svo til fjörlegra samskipta og nokkurra sýninga ungverskra listamanna hér á landi.

Á sýningunni í Listasafni Árnesinga er varpað ljósi á vinnubrögð listamannanna við þessa tengslamyndun og sýningagerð á Íslandi, á tíma þar sem strangar hömlur voru til staðar á ferða- og tjáningarfrelsi í Austur-Evrópu. Samvinna íslenskra og unverskra listamanna varð uppspretta spaugilegra viðburða sem vöktu fólk til umhugsunar á sama tíma og þeir báru tíðum vott um sjálfshæðni.

Sumarsýning Listasafns Árnesinga 2022 verður endurflutningur þessara viðburða ásamt nýrri verkum eftir sömu listamenn sem tóku þátt í þessu samstarfi á sínum tíma og blésu með því lífi í íslenska samtímalist á áttunda áratug síðustu aldar.

Meðal þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni eru Eggert Pétursson, Endre Tot, Gábor Attalai, Ingólfur Arnarsson, Kees Visser, Rúrí og Sigurður Guðmundsson.

Sýningin er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands og stendur til 4. september næstkomandi.

Fyrri greinBrennuvargar í Gallerý Listaseli
Næsta greinDanir sigursælir í Henglinum