„Erfiðasta áskorun lífsins er að elska nógu heitt“

Fyrr í vikunni sendi tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson frá sér nýtt lag og myndband. Lagið heitir Dansiði og er af nýrri plötu Jónasar, sem kemur út í nóvember.

„Platan sem er að koma út núna heitir Milda hjartað. Það myndi ég segja að væri lýsandi titill. Málið er að síðustu þrjú til fjögur ár hef ég verið að vinna með bandstemmningu og svolítið hart sánd sem mér finnst mjög gaman,“ segir Jónas í samtali við sunnlenska.is.

„Í þeim anda komu lög eins og „Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá“ sem kom út 2015 og „Vígin falla“ sem kom út 2017. Svo ætlaði ég í fyrra að hefja vinnu við plötu, með vin minn og andans fóstbróðir Ómar Guðjónsson mér við hlið. Platan átti að vera framhald af þessum lögum.“

„En þá var þessi hugmynd um milda hjartað komin í mig og lét mig ekki vera. Þessi hugmynd að gera plötu sem væri meira klassísk, „singer/songwriter“ eins og maður slettir. Lög sem þú getur spilað á kassagítar. Lög sem væru flutt af hljómsveit og gamaldags fílingur eins og verið sé að djamma. Svolítið í anda þess sem Bob Dylan gerði með The Band og síðan auðvitað trommu, bassa, fönk stemmning í anda James Brown. Bræða þessu saman við einlægni og hlýju, blandað saman við von. Það er milda hjartað. Harða platan þarf að bíða aðeins lengur,“ segir Jónas.

Ljósmynd/Bernhard Kristinn

Búið að vera lengi í vinnslu
Jónas segir að hann og Ómar hafi verið í tæp tvö ár að vinna að plötunni. „Mörg lögin eru eldri en það. Þessi hugmynd. Þetta þema hefur verið lengi í hausnum á mér og ég alltaf séð fyrir mér að takast á við það einn daginn. Nú var bara komið að því.“

„Ég er höfundur lags og texta allra laganna nema eins, sem er upprunalega óútgefið lag frá hljómsveitinni Drangar. Að auki er einn textinn ljóð eftir Hrafnkel Lárusson úr ljóðabókinni hans „Ég leitaði einskis og fann“. Ég hef mikla trú á að vinna með góðu fólki að því að þróa hugmyndir mínar og lög. Þannig er Ómar Guðjónsson að setja sinn svip á öll lögin sem stjórnandi á upptökum og útsetjari. Hann er þannig meðhöfundur. Síðan er ég með ákveðna aðila sem lesa yfir fyrir mig textana og koma með tillögur. Eins og góðir ritstjórar gera. Þar ber hæst Ásgrím Inga Arngrímsson.“

Stórt verkefni
Að sögn Jónasar komu margir að plötunni. „Hér er auðvitað haugur af fólki. Enda gæfan með mér að eiga marga frábæra samstarfsmenn að sem gefa af sér af öllu hjarta í verkefnin. Að plötunni koma fjölmargir auk mín og Ómars: Arnar Gíslason og Helgi Svavar Helgason trommuleikarar, Guðni Finnsson bassaleikari, Tómas Jónsson píanó- og hljómborðsleikari, Bjarni Frímann Bjarnason strengir og píanó, Rósa Guðrún Sveinsdóttir, Esther Jökulsdóttir, Margrét Sól Jónasdóttir og Íris Guðmundsdóttir ásamt fjölskyldukórnum söngur og raddir, Árni Bergmann Jóhannsson, Jóhann Rúnar Þorgeirsson, Bassi Ólafsson, Guðmundur Kristinn Jónsson tæknimenn og hljóðblöndun. Og svo fleiri og fleiri. Þetta er stórt verkefni.“

Ljósmynd/Bernhard Kristinn

Að elska og sættast
Aðspurður hvort það sé ákveðið þema á plötunni segir Jónas að þetta sé klárlega þema-plata. „Þemað er milda hjartað. Ég ætla að gefa út bók líka sem tengist plötunni. Með hugleiðingum um milda hjartað. Milda hjartað er flókið fyrirbæri en um leið nauðsynlegt að skoða sem hluta af æviskeiðinu.“

„Milda hjartað er ekki hjarta uppgjafar. Milda hjartað er ekki að svara í símann þegar „Nígeríusvindlarar“ hringja og segja „Hvar á ég að leggja inn?“ Milda hjartað er ekki að hætta að berjast, hætta að þrá, hætta að elska. Milda hjartað er um að elska og sættast. Að elska nógu mikið.  Að elska nógu heitt. Það er erfiðasta áskorun lífsins og um það fjallar platan.“

Lífið á ekki að vera einfalt
„Á plötunni ferðast ég svo hið illfæra einstigi sem er að reyna að fjalla um svona hluti án þess að líta út eins og kjáni. Það er flókið.  En lífið á jú ekki að vera einfalt. Þá væri ekki svo gaman að þessu.“

„Ég á mörg uppáhaldslög á plötunni. Það fer eftir því hvað ég er að hugsa. Uppáhaldstrommulag er eitt. Uppáhaldslagið mitt og konunnar minnar sem fjallar um okkar ferðalag í átt að nánd og tengingu. Það er annað. Þemalagið um Milda hjartað er síðan líka í uppáhaldi. Það er erfitt að gera upp á milli,“ segir Jónas að lokum.

Tvennir tónleikar verða með Jónasi á veitingastaðnum Hendur í höfn í Þorlákshöfn, dagana 6. og 7. nóvember. Eru það fyrstu tónleikarnir í langri útgáfutónleikaröð sem fer um allt land og endar í Gamla bíói á Þorláksmessu.

Fyrri greinSnæfríður Sól í 11. sæti á YOG
Næsta greinSæmundur kemur í heimsókn