Enn eitt stórvirkið hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar

Ágústa Ragnarsdóttir, formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnar 40 ára afmæli í ár en hún var stofnuð þann 23. febrúar 1984 og hefur starfað óslitið síðan. Afmælisveislan fer fram næstkomandi laugardag en þá verður blásið (!) til afmælisveislu í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar með sannkölluðum stórtónleikum.

Með lúðrasveitinni, sem telur um 45 meðlimi, munu koma fram hljómsveitin Skítamórall, Karlakór Selfoss, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir sem jafnframt er kynnir. Að auki koma fram Tómas Jónsson á hljómborð, Guðni Finnsson á bassagítar og Arnar Þór Gíslason á trommur. Stjórnandi er Lúðrasveitarinnar er Daði Þór Einarsson.

Ramma inn sunnlenska tónlistarsögu
Formaður sveitarinnar, hornleikarinn Ágústa Ragnarsdóttir, viðurkennir að spenningurinn sé mikill á lokametrunum, enda í mörg horn að líta fyrir svona alvöru veislu.

„Við höfum unnið mörg stórvirkin áður en þetta kemst örugglega í topp þrjá þar – þetta er risavaxið verkefni. Það eru átján lög á prógramminu og svo erum við með talsvert viðamiklar kynningar í tónum og tali í fyrri hluta tónleikanna, sem Vigdís Hafliðadóttir sér um. Við römmum inn sunnlenska tónlistarsögu, fyrir hlé verðum við á klassískari kantinum og eftir hlé förum við meira í poppdeildina,“ segir Ágústa.

„Við erum búin að æfa stíft fyrir þetta síðan í janúar en undirbúningurinn byrjaði miklu fyrr. Ætli það sé ekki sirka ár síðan við ákváðum að við þyrftum að gera eitthvað stórt og svo fórum við að móta þetta frekar í fyrrasumar. Við erum búin að láta útsetja helling af lögum, sem krefst tíma, en Össur Geirsson hefur útsett mörg af lögunum sem eru á dagskránni,“ segir Ágústa og bætir við að það sé heldur betur kominn fiðringur í sveitina.

Foreldrafélagið með hundrað manns í mat
Þau eru ófá handtökin sem þarf að vinna fyrir tónleika sem þessa en félagar LÞ munu gjörbreyta íþróttasalnum í Þorlákshöfn í tónleikahöll.

„Það er ótrúlega dýrmætt hvað svona samfélag getur lagst á eitt. Við fáum íþróttahúsið í tvo sólarhringa og förum þar inn strax í fyrramálið og þar er öllu öðru slaufað um helgina. Við krossuðum puttana þegar Þórsarar komust í úrslitakeppnina í körfunni að þetta myndi ekki rekast á við heimaleik en hann verður á sunnudagskvöldið og við erum ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir Ágústa og hlær.

„Við verðum allan daginn á morgun að rigga öllu upp og það hjálpast allir að við það. Við fáum lánaða hljómsveitarpalla úr Mosó og tæmum alla stóla úr grunnskólanum, þannig að handtökin eru mörg. Við fáum líka frábæran stuðning frá foreldrafélagi lúðrasveitarinnar sem verður með hundrað manns í mat í hádeginu á laugardaginn. Foreldrafélagið hefur stutt okkur alla tíð og núna sjá þau um alls konar hluti fyrir okkur og vinna bakvið tjöldin,“ segir Ágústa og minnir á að lokum að miðarnir á tónleikana séu að klárast.

„Það stefnir allt í það að það verði uppselt. Það er búið að seljast hratt síðustu daga og þeir sem eru ekki búnir að tryggja sér miða þurfa að hafa hraðar hendur inn á tix.is.“

Lúðrasveit Þorlákshafnar á æfingu í grunnskólanum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar tekur forystuna gegn KA
Næsta greinVillikötturinn sigraði í töltinu