Enn blásið til styrktartónleika

Þrettánda árið í röð taka Concert og EB kerfi höndum saman og halda stórtónleika til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

Tónleikarnir fara fram í Háskólabíói fimmtudaginn 30. desember kl. 17. Að vanda stígur landslið tónlistarmanna á stokk á sviðinu í Háskólabíói en frá því fyrstu tónleikarnir voru haldnir árið 1998 hafa yfir 34 milljónir króna safnast.

Það eru engin smá nöfn sem koma þarna fram. Meðal þeirra eru Sálin hans Jóns mín, Bubbi MOrthens & band, Dikta, Ingó, Sveppi, Buff, Hvanndalsbræður, Friðrik Dór og Skítamórall. Kynnir verður Kiddi Casio úr Sólinni frá Sandgerði og honum til halds og trausts verður umboðsmaður Íslands, Einar Bárðarson.

Að gefnu tilefni, er rétt að láta það fylgja, að á tónleikunum í gegnum tíðina hefur komið fram rjómi þekktustu tónlistarmanna landsins á hverjum tíma og hafa allir þeir sem komið hafa að tónleikunum gefið vinnu sína til fulls. Um leið hafa allir tæknimenn og aðrir starfsmenn tónleikanna gefið vinnu sína. Öll fyrirtæki, sem að verkefninu hafa komið, hafa einnig gefið alla sína vinnu. Að sjálfsögðu er engin breyting þar á.

Árlega greinast að meðaltali 10 – 12 börn og unglingar 18 ára og yngri með krabbamein á Íslandi. Markmiðið með stofnun Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna var m.a. að styðja við bakið á þeim og aðstandendum þeirra bæði fjárhagslega og félagslega.

Miðasala hefst á morgun, föstudag, kl. 10:00 á midi.is.

Fyrri greinÖrfáir miðar eftir
Næsta greinGríðarlega veglegt ritverk