Englar og menn í Strandarkirkju

​​Fjórðu og næstsíðustu​ tónleikar ​tónlistarhátíð​arinnar​ Englar og menn​ í Strandarkirkju verða næstkomandi sunnudag, ​9​. ágúst, kl. 14. ​

Á tónleikanum koma​ Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Hugi Jónsson baritón og Kári Allansson organisti.

​Yfirskrift tónleikanna er ,,​​Baðstofan og kirkjuloftið“ en á tónleikunum munu þeir félagar flytja tónlist sem hljómaði í baðstofum torfhúsanna og sveitakirkjum landsins. Undir söng verður leikið á langspil og harmóníum, en hljóðfærin spiluðu stórt hlutverk í tónlistarlífi Íslendinga á 19. öld. ​

​Tónleikarnir hefjast kl. 14​ ​og eru um klukkustundar langir.​

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Menningarráði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum.

​Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Í Selvogi var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér​ ​kaffi og kræsingar​ hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef Strandarkirkju og á Facebooksíðu hátíðarinnar.

Fyrri greinKristinn útfærði hlaupið snilldarlega
Næsta greinSelfossbæir fallegasta gatan í Árborg