Birna Björnsdóttir, verslunarstjóri H verslunar á Selfossi, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2025 hjá þér? Árið 2025 var algjörlega frábært ár og skilur eftir sig margar skemmtilegar minningar. Utanlandsferðir með góðum vinum, stórir áfangar í vinnu og góðar samverustundir með fjölskyldunni.

Hvað stóð upp úr á árinu? Það er svo margt sem stendur upp úr og erfitt að setja fingur á eitthvað eitt en það sem var kannski mest krefjandi og skemmtilegt á sama tíma er opnun H verslunar á Selfossi í sumar. Það er búið að blunda í mér í þrjú ár og varð loks að veruleika.

Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Ég hlusta á tónlist alla daga í vinnunni og finnst ekkert skemmtilegra en þegar vinnufélagarnir setja playlistann minn á, sem er góð blanda úr flestum áttum. En það sem var lang mest spilað var Í löngu máli með Unu Torfa, góð minning frá frábærri helgi í Vestmannaeyjum með eðal konum.

Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Gamlársdagur er einn af mínum uppáhaldsdögum. Hann byrjar snemma og endar seint. Dagurinn fer mest í undirbúning og þeir sem þekkja mig vita að ég elska að undirbúa gott partý. Ég held mikið uppá þetta kvöld þar sem glimmer og glans fær að njóta sín. Það sem er því mest ómissandi er mitt besta fólk, glimmer og góða skapið.

Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Við ætlum að vera heima með hluta af stórfjölskyldunni. Í ár erum við 18 saman að borða og fagna nýju ári. Þannig að það verður líf og fjör.

Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Við erum alltaf með kalkún með öllu tilheyrandi og það er alveg heilagt fyrir fjölskyldumeðlimi að breyta því ekki. Og svo auðvitað ein góð áramóta marengsbomba í eftirrétt.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Nei, ég hef ekki gert það en mér finnst gott að byrja nýtt ár á að skoða árið sem er að líða og þau markmið sem ég hef sett mér og haka við þau sem hafa skilað árangri. Og mögulega bætist eitthvað við á nýju ári.

Hvernig leggst nýja árið í þig? Það leggst vel í mig. Það sem ég mun kannski leggja mesta áherslu á þetta árið er að verja meiri tíma með fólkinu mínu. Það fékk aðeins að finna fyrir því á því liðna að það var mikið að gera hjá mér og árið soldið flaug frá okkur. En það er alltaf eitthvað í pípunum og fullt af skemmtilegum verkefnum framundan. Ég fer mjög bjartsýn inn í nýtt ár og tek 2026 fagnandi.

