Elísabet sigraði í Söngkeppni NFSu

Elísabet Björgvinsdóttir á sviðinu í Iðu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Elísabet Björgvinsdóttir frá Selfossi sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Elísabet söng hið klassíska sálarlag (You Make Me Feel Like) A Natural Woman sem Aretha Franklin gerði vinsælt á sínum tíma. Kraftmikill söngur Elísabetar heillaði dómnefndina, og salinn sem fagnaði henni vel. Elísabet varð í 2. sæti í Söngkeppni NFSu í fyrra.

Í 2. sæti nú varð Hugrún Tinna Róbertsdóttir frá Selfossi sem flutti lagið Daddy Lessons eftir Beyoncé og í 3. sæti varð Ásrún Aldís Hreinsdóttir frá Selfossi með Rihönnu lagið Love on the Brain. Elín Karlsdóttir frá Eyrarbakka fékk verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en hún söng Pink Floyd lagið Echoes.

Söngkeppnin er einn af hápunktum félagslífsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands og keppist söngkeppnisnefndin við það að hafa kvöldið sem glæsilegast. Það gekk svo sannarlega eftir í kvöld en þema keppninnar var Grease og voru skreytingar í salnum í anda myndarinnar.

Í dómarahléinu var boðið upp á frábær skemmtiatriði, hljómsveitin Koppafeiti steig á stokk, danshópur frá DWC flutti frábært dansatriði og sigurvegari söngkeppni framhaldsskólanna, Emilía Hugrún Lárusdóttir frá Þorlákshöfn söng tvö lög af sinni stöku snilld.

Fyrri greinLitu ekki til baka í seinni hálfleik
Næsta greinSkóflunum stungið í Rauðukamba