Elísabet heillaði alla með fallegum söng

Fyrir hönd heimamanna söng Elísabet Björgvinsdóttir úr Vallaskóla. Ljósmynd/Aðsend

Föstudaginn 6. desember fjölmenntu á fimmta hundrað ungmenni frá tólf félagsmiðstöðvum af Suðurlandi á Hótel Selfoss. Þangað komu þau til að hlýða á jafnaldra sína syngja í undankeppni fyrir söngkeppni Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fer fram í mars á næsta ári. Þessi viðburður er í daglegu tali kallaður USSS.

Félagsmiðstöðin Zelsíuz í Árborg hafði veg og vanda að skipulagningu keppninnar í ár en á hana mættu unglingar frá Þorlákshöfn í vestri alla leiðina á Höfn í Hornafirði í austri – að meðtöldum unglingum frá Vestmannaeyjum.

Ellefu atriði stigu á stokk og voru þau hvert öðru glæsilegra. Kepptust þau um hylli dómaranna en í dómnefnd í ár voru söngvararnir Camilla Rut, Hanna Guðný og Þórir Geir. Slík voru gæðin að dómararnir þurftu auka tíma til að skera upp sinn úrskurð.

Svo fór að þrjú atriði voru valin sem fara áfram á söngkeppni Samfés sem haldin verður í Laugardalshöll á næsta ári. Þetta voru atriði frá félagsmiðstöðinni Svítunni í Þorlákshöfn, Tvistinum á Hvolsvelli og loks frá Zelsíuz í Árborg.

Helga Dögg Pálsdóttir söng lagið „Skinny Love“ fyrir hönd Tvistsins en með henni spilaði frábær hljómsveit undirleikinn en í henni voru: Jade Jóhanna á gítar, Hákon Kári á hljómborð, Arnar Högni á bassa og Eva María söng bakrödd. Í atriði Svítunnar tóku vinkonurnar Emilía Hugrún og Sigríður Júlía lagið „At last“ eftir Ettu James.  Fyrir hönd heimamanna söng Elísabet Björgvinsdóttir úr Vallaskóla en hún tók lagið „Who are you“ eftir Jessie J og heillaði alla með fallegum söng. Unglingarnir frá Selfossi studdu vel við bakið á Betu og má þar nefna að vinir hennar útbjuggu veggspjöld með hvatningarorðum henni til heiðurs.

Að söngkeppninni lokinni var talið í fjörugan dansleik þar sem unglingarnir dönsuðu við takfastan takt matreiddan af plötusnúðnum Orra Einars en þegar hann lauk sinni matseld tróð rapparinn Flóni upp við mikinn fögnuð unglinganna. Þeir skemmtu sér vel og voru sínum félagsmiðstöðvum til sóma.

Fyrri greinHamar vann í tvíframlengdum leik
Næsta greinClaudiu og Vésteinn héraðsmeistarar