Elín sendir frá sér „albúm“

Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld á Selfossi, hefur sent frá sér flautuverkið „albúm“ á geisladiski í flutningi Pamelu De Sensi, flautuleikara.

Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur diskinn út.

Disknum fylgir ritlingur sem er myndlýsing þeirra Önnu Giudice og Alex Raso af verkinu. Stærð ritlings er sama og tíðkast á umslögum 45 snúninga hljómplatna eða 19×19 sm.

Verkið er fyrir alt-flautu og lúppu og er tónefni verksins unnið út frá fangamörkum allra í fjölskyldu Elínar. Myndlýsingin á verkinu er unnin út frá sömu hugmynd.

Verkið var frumflutt vorið 2015 á tónleikum Tónleikasyrpunnar 15:15 og tekið upp sama haust í Stúdíó Sýrlandi. Um upptökur og eftirvinnslu sá Þorkell Máni Þorkelsson.

Pamela De Sensi hefur verið ötul við að flytja albúm á tónleikum m.a. á Sumartónleikum í Sigurjónssafni sumarið 2015 þar sem Jónas Sen gagnrýnandi Fréttablaðsins bar mikið lof á verkið og leik Pamelu.

Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld hefur sent frá sér fjölda tónverka á undanförnum árum og verk eftir hana komið út á hljómdiskum og í bókum. Árið 2011 kom út bókverk hennar Póstkort frá París með tónverkinu Leik sem er flutt af þeim Hallfríði Óskarsdóttur flautuleikara og Ármanni Helgasyni klarínettuleikara.