Elfar Guðni varð verklaus í Önundarfirði sakir ofsælu

Listmálarinn Elfar Guðni Þórðarson í Sjólyst á Stokkseyri dvelur þessar vikurnar að Sólbakka 6 á Flateyri og litfangar á striga vestfirska náttúru með sínu mikilhæfa handbragði.

Fanggæsla og eiginkona Elfars Guðna, Helga Jónasdóttir, er með í för.

Þau hafa verið nokkrum sinnum áður á Sólbakka á þeim 13 árum sem Mannlífs- og menningarúgerð Önfirðingafélagsins hefur staðið að Sólbakka og tæplega 3.000 manns notið þar dvalar um lengri eða skemmri tíma. Í þeim hópi eru allmargir Sunnlendingar svo sem hljómseitin Granít í Vík í Mýrdal og fylgdarlið sem var þar í þrígang.

Á dögunum varð Elfar Guðni fyrir náttúruáhrifum sem hann hefur aldrei upplifað á sínum listamannsferli sem nær brátt hálfri öld.

“Einn morguninn keyrði ég inn Hvilftarsrönd og niður í fjöru þar sem bærinn Kaldeyri stóð. Hafið, fjöllin, báturinn, lognið, kyrrðin og náttúran í heild sinni var með slíkum glæsibrag og með þeim áhrifum að ég varð verklaus drykklanga stund. Ég hefi aldrei upplifað slíkt áður. Undir hádegi kulaði aðeins inn fjörðinn og bar hughrifin til sama lands á ný og ég málaði af krafti sem aldrei fyrr” sagði Elfar Guðni í símtali við Björn Inga Bjarnason á Eyrarbakka, formann Önfirðingafélagsins.

Formaðurinn sagðist í fljótu bragði aðeins sinni áður hafa heyrt af slíkum áhrifum. Það var um 1830 þegar séra Þorvaldur Böðvarsson í Holti í Önundarfirði flutti brott frá hinu góða brauði þar og því sem fylgir. Þorvaldur sagði það hafa verið “sakir ofsælu.” Þorvaldur Böðvarsson lauk svo sinni prestsþjónustu að Holti undir Eyjafjöllum og meðal afkomenda hans er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands.

Elfar Guðni mun í vetrarbyrjun verða með sýningu á Stokkseyri á myndum sínum að vestan sem eru allt frá Djúpi til Dýrafjarðar.

Fyrri greinGjafaleikur í tilefni af nýrri heimasíðu
Næsta greinBæjarstjóri Hveragerðis í kosningaeftirlit