Elfar Guðni gefur málverk í Sólbakka-lottó

Elfar Guðni Þórðarson, listmálarinn góði á Stokkseyri, er einn þeirra mörgu listamanna sem dvalið hafa á Sólbakka 6 á Flateyri og hrifist af önfirska umhverfinu og mannlífinu þar.

Elfar Guðni hefur í þrígang verið á Sólbakka og fjórða ferðin er í undirbúningi nú í september.

Þegar Elfar Guðni frétti af veru hljómsveitarinnar Granít frá Vík í Mýrdal á Sólbakka þessar vikurnar og tónleikum sveitarinnar laugardaginn 20. ágúst ákvað hann að gefa Önfirðingafélaginu eina af myndunum sem hann málaði í Önundarfirði sumarið 2009. Er það mynd af Þorfinninum séð af Klofningi utan Flateyrar.

Ákveðið var síðan að myndin verði vinningur í „Sólbakka-lottói“ sem fer fram á tónleikunum. Lottó-miðinn er að virði 1000 kr. enda er hann í líki 1.000 króna seðils en á þeim seðli er Önfirðingurinn af Suðurlandi; Brynjólfur biskup Sveinsson í Skálholti sem fæddur var að Holti í Önundarfirði.

Tónleikagestirnir fá þennan 1.000 króna seðil afhentan ókeypis og skrifa nafn sitt á bakhliðina. Þar með hefur hann fengið 1.000 króna virði og fer í sérstakan lottó-pott að hætti Sólbakka 6. Einn seðill verður dreginn út og fær eigandi hans málverkið í vinning.

Fyrri greinSumarbústaðaþjófar reyndu að stinga af
Næsta greinAlls óvíst um endurbyggingu Eden