Eldmessuganga í dag

Í dag eru liðin 230 ár frá því að sr. Jón Steingrímsson prestur á Prestsbakka á Síðu messaði í kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri og söng þar hina frægu Eldmessu sem talin er hafa stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði byggðinni á Klaustri í Skaftáreldum.

Til minningar um þennan atburð efna Kirkjubæjarstofa og Katla jarðvangur til Eldmessugöngu í dag kl. 14.

Gangan hefst við Minningarkapellu sr Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri. Þar mun sr. Haraldur M Kristjánsson sóknarprestur í Víkurprestakalli fylgja göngunni úr hlaði með minningarorðum um Eldmessuna og Eldprestinn sr Jón Steingrímsson.

Gengið verður að Systrastapa en þangað gekk sr. Jón með söfnuði sínum eftir messuna. Þar blasir Eldmessutanginn við augum en svo nefnist hrauntanginn sem þá ógnaði byggðinni á Klaustri. Við Systrastapa mun Jón Helgason í Seglbúðum flytja ávarp í tilefni dagsins.

Við þetta tækifæri verður nýtt fræðsluskilti Kirkjubæjarstofu og Kötlu jarðvangs um Eldmessuna afhjúpað við gönguleiðina að Systrastapa. Gerð fræðsluskiltisins er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Gengið er til baka sömu leið og að lokinni göngunni er þátttakendum boðið að sjá stuttmyndina Eldmessan í Skaftárstofu/félagsheimilinu Kirkjuhvoli og þiggja kaffiveitingar.

Fyrri greinLéttleikandi Valgeir á Sólheimum
Næsta greinTvennir sumartónleikar í dag