Eldjárn og aðrir góðir

Að vanda mætir úrvalslið rithöfunda á upplestrarkvöld í Sunnlenska bókakaffið í kvöld. Húsið opnar klukkan átta, lestur hefst um klukkan hálfníu og á tíunda tímanum gefst svo oft kostur á að spjalla við rithöfunda og fá áritanir á bækur þeirra.

Að þessu sinni mæta Þórarinn Eldjárn, Kristín Steinsdóttir, Óli Ágústar og Þorlákur Karlsson. Húsfyllir hefur verið á upplestrarkvöldunum fram að þessu og góður rómur gerður að skáldum.

Þórarinn Eldjárn þarf ekki að kynna en hann sendir nú frá sér skáldsöguna Hér liggur skáld. Auk þess skrifar Þórarinn nú tvær barnabækur sem myndskreyttar eru af Eddu Heiðrúnu Backman.

Kristín Steinsdóttir sendir frá sér heimildaskáldsögu um Bjarna-Dísu. Óli Ágústar fyrrum forstöðumaður hjá Samhjálp les úr sinni fyrstu skáldsögu, Litlatré. Þorlákur Karlsson les úr ljóðabók sinni Tuttugu þúsund flóð þar sem segir frá laxveiði í Ölfusá.

Hinir tveir síðarnefndu eru nýgræðingar í heimi skáldskapar en hin tvö meðal þekktustu og virtustu höfunda þjóðarinnar.

Fyrri greinHreimur á heimavelli
Næsta greinHlynur Geir kylfingur ársins hjá GOS