Eldgosaljósmyndir í Fold

Í dag kl. 15 verður opnuð samsýningin 23 ljósmyndara í Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Yrkisefni þeirra eru eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.

Á sýningunni eru margar þekktar ljósmyndir sem birst hafa í stærstu fjölmiðlum um heim allann auk annarra sem koma nú fyrir sjónir almennings í fyrsta skipti. Sýningin nefnist Úr iðrum jarðar.

Ljósmyndarnir koma úr ýmsum áttum sem nálgast myndefni sitt með ólíkum hætti en sameinast í áhuga sínum á náttúru landins og hinum mannlega þætti sem birtist í baráttu fólks við náttúruröflin.

Meðal ljósmyndara sem eiga myndir á sýningunni eru Brynjar Gauti, Ingólfur Júlíusson, Jón Páll Vilhelmsson, Jón Viðar Sigurðsson, Rósant Guðmundsson og Sigursteinn Baldursson.

Þetta er lifandi sýning sem stendur í allt sumar og munu nýjar myndir berast ef breytingar verða á gosinu eða önnur gos eiga sér stað.

Við opnun sýningarinnar verður boðið upp á gos og hraun.

Fyrri greinGríðarlegt svifryk á Hvolsvelli
Næsta greinMarkalaust hjá Hamri og Völsungi