„Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert“

Harpa Rún á stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem Edda verður frumsýnd annan í jólum. Ljósmynd/Aðsend

Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum við Heklurætur situr ekki auðum höndum þessa dagana – frekar en aðra daga ársins.

Í haust sendi hún frá sér ljóðabókina Vandamál vina minna – sína fjórðu bók – og á öðrum degi jóla verður leiksýningin Edda frumsýnd í Þjóðleikhúsinu en Harpa Rún er ein þriggja höfunda verksins.

Auk Hörpu Rúnar sáu þeir Jón Magnús Arnarsson og Þorleifur Örn Arnarsson um að skrifa jólasýninguna. Vert er að taka fram að sá síðarnefndi á sumarbústað á Suðurlandi en telst þó ekki vera Sunnlendingur svo að viðtalið er einungis við Hörpu Rún. Það er vonandi að það sé fyrirgefið.

Harpa Rún og Jón Magnús eru gott teymi og vinna mikið saman. Ljósmynd/Aðsend

„Við Jón Magnús höfum unnið saman mjög lengi, og skrifum í rauninni mjög fátt án álits hvors annars. Fyrsta verkefnið sem við unnum opinberlega saman var þýðingin á Rómeó og Júlíu sem Þorleifur setti upp í Þjóðleikhúsinu haustið 2021. Það samstarf var afskaplega gjöfult. Þorleifur setti Edduna upp úti í Þýskalandi og hlaut fyrir það stærstu leikhúsverðlaunin þar í landi. Þegar kom að því að setja hana upp á Íslandi sá hann að það þyrfti að nálgast efniviðinn upp á nýtt og skrifa annað verk sem myndi ná til Íslendinga. Hann vantaði penna og hafði samband við okkur Jón Magnús, vitandi að við elskum norræna goðaheiminn næstum því eins mikið og hvort annað,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.

Farsælt samstarf en ekki átakalaust
Harpa Rún segir að samstarf þeirra þriggja og ferlið í heild sinni hafi gengið heilt á litið vel.

„Við Jón kunnum vel að vinna saman og eigum auðvelt með að skipuleggja okkur, skipta með okkur verkum og kalla fram það besta í fari hvors annars. Við erum líka komin á þetta þægilega hreinskilna stig, þar sem við eigum auðvelt með að nálgast texta hvors annars á gagnrýninn hátt án þess að óttast að vera of hörð. Þorleifur kemur síðan inn með allt aðra sýn og sér gjarnan eitthvað sem við sjáum ekki. Þannig myndi ég segja að samstarfið hafi gengið, ekki átakalaust, en farsællega.“

Þorleifur Örn Arnarsson, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarson. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að við höfum lagt af stað í apríl en fyrstu fundir okkar þriggja voru á sauðburði. Þá byrjuðum við að hittast og undirbúa okkur, ræða málin og leggja línur. Skrifin fóru síðan mestmegnis fram í sumar og fyrsti samlestur var í lok október. Sýningin er enn að þróast og er bráðlifandi, þannig að þessu verður ekki lokið fyrr en kl. 20 á öðrum degi jóla,“ segir Harpa Rún full tilhlökkunar fyrir frumsýningunni.

Fann eldinn aftur í leikhúsinu
Harpa Rún kann svo sannarlega að munda pennann og hefur meira að segja fengið verðlaun fyrir skrif sín. Fyrir ljóðabókina Eddu hlaut hún bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019. Að skrifa fyrir leikhús er þó eitthvað sem hún hefur aldrei gert áður.

„Eins og ég hef margoft sagt í öllu ferlinu – þá hef ég aldrei skrifað leikhús áður og hef allt annan bakgrunn en strákarnir sem báðir eru fæddir inn í leikhúsfjölskyldu og hafa starfað þar frá ýmsum áttum. Það kom mér á óvart hvað þetta kom náttúrulega. Þetta er að mörgu leyti auðveldara form en til dæmis skáldsagan, þar sem allar sviðslýsingar þurfa að vera með og textinn á blaðinu er endanleg útkoma. Leikhúsið er svo lifandi – ekki síst í samstarfi með Þorleifi þar sem allt getur gerst.“

„Fyrir mig var samt það stærsta sem gerðist í þessu ferli að finna skrifgleðina aftur. Hún yfirgaf mig svolítið eftir að ég kláraði Kynslóð og fór í fæðingarorlof en þegar við vorum að leggja lokahönd á handritið í haust þá læddist hún að mér aftur. Ég kom út í haustnóttina og fann eldinn aftur. Eldinn í orðunum og orkuna sem fylgir því að skrifa eitthvað sem hreyfir við þér og þú vonar að muni hreyfa við öðrum.“

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Áhugavert að máta við heimsmynd okkar í dag
Boðið var upp á námskeið í samstarfi við Endurmenntun HÍ í tengslum við sýninguna. Á námskeiðinu fjallaði Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun, um goðakvæðin í Eddu, með áherslu á Völuspá og Gylfaginningu Snorra Eddu. En hvernig skildi Harpa Rún hafa undirbúið sig áður en hún lagðist við skriftir?

„Ég lá í heimildum og las bæði upprunalegu textana og allskonar þar í kring. Það er búið að byggja svo mikið á þessum efniviði að lesefnið er í raun óþrjótandi og ég reyndi að lesa til dæmis nútímalegar endursagnir, til að vera örugglega með sögurnar á hreinu. En svo eru Eddukvæðin sjálf svo hreinn efniviður. Um leið og þú ferð að botna aðeins í skáldskaparmálinu þá eru þessar sögur og sagnir svo tærar, sagðar með þessari miklu ljóðrænu. Bakvið hana liggja síðan sagnirnar sem fólkið trúði á og mótaði að sínum þörfum. Og það eru þær sem eru svo heillandi og gaman að spinna úr, því eðli mannsins er alltaf það sama þótt ytri aðstæður hafi breyst.“

„Þegar við lásum sögurnar um Goðin og veltum fyrir okkur hvaða erindi þær ættu við nútíma áhorfandann kom svo margt í ljós sem þarf að leita uppi í kjarnanum. Óðinn er til dæmis goð sem þráir þekkingu og byggir sinn heim á allsnægtum fyrir sig og sitt fólk. Þetta er það sem verður heimsmyndinni að falli – ofgnóttin, þekkingarþráin og þetta að vilja alltaf meira og meira. Freyr og Freyja, Vanagoðin, eru tengingin við náttúruna. Þau lifa í hennar hringrás þangað til þau koma sem gíslar í Ásgarð og verða með tímanum samdauna þessum nýja neysluheimi.“

„Innan þessa heims hrærast síðan allskonar persónur sem standa fyrir og takast á við það sama og við erum að glíma við í dag. Þór og karlmennskan og ofbeldið. Sif, konan hans sem tekst á við manninn sinn með öllu sem því fylgir. Loki sem er einhvern veginn allt, bragðarefur og sá sem knýr atburðarásina áfram. Baldur sem er fegurðin sem verður að deyja og Iðunn, drottning æskudýrkunarinnar og svona mætti lengi telja. Það er svo áhugavert að taka þessar gömlu sögur og máta við heimsmynd okkar í dag, sem gengur sama hring í átt til Ragnaraka, aftur og aftur og aftur.“

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Um Eddu frá Eddu
Sem fyrr segir sendi Harpa Rún ljóðabókina Eddu frá sér árið 2019 en hvernig er það, mun það ekkert rugla fólk að sýningin beri sama nafn og ljóðabókin? „Þessi spurning hefur komið upp og eins gaman og það væri nú að færa ljóðabókina mína í leikhúsbúning þá held ég að það sé verkefni fyrir annað svið og seinna. En hver veit? Eddur hafa reynst mér vel gegnum tíðina,“ segir Harpa Rún og bætir því við – aðspurð – að það standi ekki til að skíra dóttur sína Eddu ef hún eignast eina slíka. Það myndi valda ennþá meiri ruglingi.

Ekki hefðbundin uppsetning
Það er augljóst að leikhúsumhverfið á vel við Hörpu Rún og mega áhorfendur eiga von á besta konfektinu þessi jólin þegar þeir sjá jólasýningu Þjóðleikhússins.

„Þessi sýning verður algjört sjónarspil. Leikhópurinn er skipaður mörgu af okkar allra besta fólki og þau hafa öll lagt svo mikið til málanna, byggt sínar persónur upp af næmni og innsæi. Tónlistin, sviðsmyndin og ekki síst búningarnir eru síðan kafli út af fyrir sig. Það er margt sem mun koma fólki á óvart og þetta er sannarlega ekki hefðbundin uppsetning en hún er ótrúlega tær í sinni mynd finnst mér. Þarna mætast alls konar nálganir, ljóðræna, nektardans, húmor, hnignun og fjöldamorð á hringsviði sem dunar og talar til okkar á óvæntan hátt.“

„Þetta eru kannski ekki Eddukvæðin sem við lærðum í skólanum – þótt þau séu þarna í bland – en þetta er lifandi efniviður sem er ætlað að hreyfa við fólki, tala til okkar og vekja tilfinningar sem fá okkur til að skoða okkur og heimsmyndina okkar í öðru ljósi. Ég er bæði búin að gráta og hlæja á æfingum en líka sitja með gæsahúð af aðdáun yfir öllu þessu magnaða listafólki sem við eigum,“ segir Harpa Rún og bætir því við að þetta leikhúsævintýri sé búið að vera magnað. „Ég er í alvöru byrjuð að upplifa smá sorg að þetta sé að verða búið!“

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Ólýsanlegt að sjá þetta lifna á sviðinu
Nú þegar Harpa Rún hefur fengið smjörþefinn af leikhúslífinu þá er ekki úr vegi að spyrja hvort ritformið eigi betur við hana – að skrifa bækur eða leiksýningar.

„Þetta eru gjörólíkir miðlar, eins og ég var kannski aðeins komin inn á áðan. Mér finnst alltaf svo frjótt að geta skipt á milli. Þetta ferli hefur verið eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og það er ótrúlega gaman bæði að skrifa með öðrum og eins að leggja síðan textann sinn í nýjan munn og nýjar hendur og fá athugasemdir og breytingartillögur frá leikurunum. Auðvitað er síðan ólýsanlegt að sjá þetta lifna á sviðinu, áherslurnar samhengið og samlíðanina sem hann vekur.“

„Ég er hins vegar meiri rithöfundur en leikskáld ennþá og hlakka til að snúa mér aftur að skáldsögunni sem ég lagði til hliðar þegar þetta verkefni kom til sögunnar. Það er kyrrlát vinna og mikil einvera, sem er ágætt eftir svona mikið og öflugt samstarf.“

Harpa Rún segir að hún vilji gjarnan nýta þessa leikhúsreynslu áfram, hvort sem það verður hjá stórum eða litlum leikhúsum.

Með allar þessar Eddur í lífinu þá er freistandi að spyrja hvort stefnan sé sett á að vinna einhvern tímann Edduna? „Heitir það ekki Gríma fyrir leikhúsið? Ég hef að minnsta kosti aldrei skrifað Eddu án þess að vinna verðlaun,“ segir Harpa Rún, kankvís að lokum.

Leikhúsumhverfið á vel við Hörpu Rún. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMunaðarlaus sex ára gömul
Næsta greinHvergerðingar fara varlega í gjaldskrárhækkanir