Eiríkur Örn hagar sér eins og sveitaballapoppari

Eiríkur Örn Norðdahl. Ljósmynd/Ágúst Atlason

Í tilefni útgáfu skáldsögunnar Náttúrulögmálin, sem kom út hjá Máli og menningu í október síðastliðnum, ætlar höfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl að haga sér eins og sveitaballapopparinn sem hann hefur alltaf dreymt um að vera og rúnta eftir öllum fjörðum, dölum, eyrum og annesjum landsins með skemmtidagskrá og skottið fullt af bókum.

Á tæpum mánuði mun Eiríkur koma við á hátt á fjörutíu stöðum um land allt – knæpum, bókasöfnum, veitingastöðum, kaffihúsum, byggðasöfnum – og lesa upp úr Náttúrulögmálunum, segja frá sögusviðinu, hitta lesendur, sýna gamlar ljósmyndir, svara spurningum, strauja kort og árita bækur.

Túrinn hófst á Vestfjörðum þann 21. október og síðan þá hefur Eiríkur ferðast réttsælis um landið. Nú er röðin komin að Suðurlandi þar sem Eiríkur kemur við á Midgard á Hvolsvelli kl. 20 á þriðjudagskvöld, Bókasafninu í Vestmannaeyjum kl. 17 á miðvikudag, Bókakaffinu á Selfossi á fimmtudag kl. 20 og á Glæsivöllum í Ölfusi á föstudagskvöld kl. 20.

Um bókina frá útgefanda, Máli og menningu:

„Hafið þér heyrt af þjóðtrú þeirri sem segir að ef sjö prestar og einn eineygður standi fyrir dyrum Ísafjarðarkirkju muni Gleiðarhjalli allur losna af Eyrarfjalli og hrynja yfir bæinn? Og þar með verði bundinn endi á alla mannabyggð á Ísafirði?“

Snemma sumars árið 1925 hefur yngsti, fegursti og jafnfram óviljugasti biskup Íslands, herra Jón Hallvarðsson, kallað til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.

Náttúrulögmálin er skáldsaga sem gefur einstaka og karnivalíska mynd af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Hér er brugðið á leik með heimildir og sögulegar staðreyndir í hrífandi og bráðskemmtilegri sögu.

Fyrri greinEldur kviknaði í steikingarbúnaði
Næsta grein„Fór betur en á horfðist“