Einvígis aldarinnar minnst í Kötlusetrinu

Kötlusetur. Ljósmynd/Kötlusetur

Fimmtíu ára afmæli Einvígis aldarinnar verður fagnað í Vík í Mýrdal um helgina en Kötlusetur mun fagna þessum merka viðburði með skáksýningu og hraðskákmóti.

Árið 1972 mættust Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer og sovéski heimsmeistarinn Boris Spassky í heimsmeistaraeinvígi í Laugardalshöllinni. Orrusta þeirra var einstök og varð um leið einn af hápunktum kalda stríðsins. Rússar höfðu haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og varð Bobby Fischer fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna heimsmeistaratitilinn í skák frá upphafi keppninnar 1866.

Albert Cañagueral var ungur námsmaður að taka sín fyrstu skref í blaðamennsku þegar einvígið fór fram og nú, 50 árum síðar, rifjar hann upp einvígið í sýningunni í Kötlusetri, en ekki síst upplifunina af því að vera viðstaddur þennan merka viðburð.

Við opnunina munu Guðmundur G. Þórarinsson, þáverandi formaður Skáksambands Íslands og framkvæmdastjóri einvígisins, ávarpa gesti og Friðrik Ólafsson, fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák, mun segja nokkur orð um upphaf skáklistarinnar. Ljúf tónlist verður í boði hæfileikaríkra tónlistarmanna á svæðinu og boðið verður upp á léttar veitingar.

Fyrsta hraðskákmót Kötluseturs verður sett 15:30 og er það unnið í samvinnu við Skákskóla Íslands. Keppt verður í barna, unglinga og fullorðinsflokki.

Bobby Fischer hvílir í Laugardælum. Árið 2014 vitjaði rússneski stórmeistarinn Garry Kasparov grafarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSuðurtak bauð lægst í Búrfellsveg
Næsta greinÞjálfaraskipti hjá Selfyssingum – Þórir tekur við