Það ríkti einstök stemning í Vík í Mýrdal fimmtudagskvöldið 1. maí, þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands kom þar fram í fyrsta sinn í þrjátíu ár.
Tónleikarnir, undir stjórn hins virta hljómsveitarstjóra Evu Ollikainen, voru sannkölluð tónlistarveisla fyrir íbúa bæjarins sem fjölmenntu í salinn og tóku þátt með einlægri hlýju og þakklæti.
Kvöldið var ekki aðeins sérstakt vegna komu hljómsveitarinnar, heldur einnig fyrir þátttöku Kammerkórs Tónskóla Mýrdalshrepps, undir stjórn Alexöndru Chernyshovu ásamt kórfélögum frá Kirkjubæjarklaustri undir stjórn Svavars Sigurðssonar. Kórinn flutti tvö falleg lög sem vöktu mikla hrifningu og hlaut dynjandi lófatak í lok flutningsins.
„Tónleikarnir í Vík minna okkur á hversu mikilvægt það er að tónlistarviðburðir af þessu tagi séu aðgengilegir landsbyggðinni. Þetta var kvöld sem margir munu muna lengi, fullt af list, gleði og sameiginlegri upplifun,“ sagði Alexandra í samtali við sunnlenska.is.
