Einstök heimild í menningar- og hugmyndasögu

Draumadagbók Sæmundar Hólm (1749-1821) er útgáfa á samnefndu handriti og einstök heimild í menningar- og hugmyndasögu sem nú birtist í fyrsta sinn á prenti.

Það er bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi sem gefur bókina út en umsjón með útgáfu hafði Már Jónsson prófessor. Sjón ritar formálsorð.

Sæmundur Hólm var bóndasonur úr Meðallandi og nam fyrst við Skálholtsskóla en lagði síðan stund á myndlist og guðfræði í Kaupmannahöfn. Hann tók við embætti sóknarprests á Helgafelli á Snæfellsnesi haustið 1789 og sinnti því næstu þrjá áratugi, en prestskaparárin einkenndust af deilum við nágranna og yfirboðara.

Í Draumadagbókinni lýsir Sæmundur draumum sínum árið 1794 en þar birtust tíðum
andstæðingar hans á Helgafellsárum, þótt oftar dreymdi hann bernsku sína og
Hafnarárin. Í draumunum bregður fyrir ókennilegum ormum af ýmsu tagi og tunglið
tekur á sig fjölbreytilegar myndir. Öllu þessu lýsir Sæmundur af einlægni með
einföldu orðalagi og án túlkana. Sumt teiknaði hann og fylgja myndirnar útgáfunni.

Már Jónsson skrifar ítarlegan inngang að verkinu þar sem fjallað er um ævi
Sæmundar og skrásetningu drauma settar í sögulegt og fræðilegt samhengi. Þá
fylgja ritinu ýmiss konar ítarefni og skrár.

Fyrri greinNóg framboð af leikskólaplássum í Hveragerði
Næsta greinÖkklabrotnaði ofan við Skógafoss